Sport

Íslenska crossfit fólkið heldur uppi fjörinu í Evrópuliðinu | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Evrópska liðið er fullt af Íslendingum.
Evrópska liðið er fullt af Íslendingum. Mynd/Instagram/crossfitgames
Allir meðlimir evrópska úrvalsliðsins í crossfit hafa nú skilað sér til Melbourne í Ástralíu þar sem framundan er CrossFit Invitational mótið um helgina.

Ísland á þrjá af fjórum keppendum í Evrópuliðinu sem hefur titil að verja frá því í fyrra. Björgvin Karl Guðmundsson og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir geta unnið annað árið í röð og nú kemur Anníe Mist Þórisdóttir inn fyrir Katrínu Tönju Davíðsdóttur sem var í liðinu fyrir ári sína.

Ekki slæmt fyrir eina litla þjóð norður í Atlantshafi að geta skipt út tvöföldum meistara á heimsleikunum fyrir annan tvöfaldan meistara frá heimsleikjunum.

Evrópska úrvalsliðið mun þarna keppa við úrvalslið Bandaríkjanna, Kanada og Kyrrahafsins. Evrópa fékk 23 stig í fyrra eða sjö stigum meira en Bandaríkin sem varð í öðru sæti.

Hér fyrir neðan má sjá evrópska hópinn á æfingu í gær en myndbandið var sett inn á fésbókarsíðu Crossfit heimsleikana. Liðið er að æfa sig í því að vinna með orminn.





Allur hópurinn hefur nú skilað sér til Melbourne í Ástralíu og á twitter-síðu Crossfit heimsleikanna má sjá skemmtilega mynd af evrópska liðinu og það fer eiginlega ekkert á milli mála að íslensku crossfitararnir halda uppi fjörinu í Evrópuliðinu.







Anníe Mist Þórisdóttir setti líka mynd frá æfingu íslenska, fyrirgefið,  evrópska liðsins í gær en allir í liðinu þurfa að vinna mjög vel saman í mörgum æfinganna.  Eins og sjá má hér þá átti eftir að fara aðeins betur yfir málin en þau hafa tíma til þess því keppnin fer ekki fram fyrr en á sunnudaginn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×