Innlent

Fimm ára nauðgunarmál komið í meðferð dómstóla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konan þekkti ákærða ekki. Hún hafði komið á heimili hans með vini ákærða.
Konan þekkti ákærða ekki. Hún hafði komið á heimili hans með vini ákærða. Vísir/Eyþór
Karlmaður á fertugsaldri sem ákærður er fyrir að nauðga ungri konu árið 2012 er gefið að sök að hafa að næturlagi haft samræði og önnur kynferðismök við hana.

Á hann að hafa haft samræði og munnmök við stúlkuna gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum vegna svefndrunga og ölvunar.

Konan fór í partý með ungum manni sem hún hafði verið að hitta í skamman tíma. Morguninn eftir vaknaði hún við hliðina á vini mannsins sem var að hafa við hana munnmök. Um nóttina hafði hann nauðgað henni, eins og segir í ákæru.

Telja málið líklegt til sakfellingar 

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni en þinghald í málinu er lokað. Brot mannsins varða við 2. málsgrein 194. greinar almennra hegningarlaga en lágmarksrefsing er eitt ár en hámarksrefsing sextán ára fangelsi. Maðurinn neitar sök.

Konan kærði málið til lögreglu fyrir um tveimur árum. Að lokinni rannsókn fór það til héraðssaksóknara sem felldi málið niður. Við það vildi konan ekki una og kærði ákvörðunina til ríkissaksóknara. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að héraðssakóknara bæri að gefa út ákæru í málinu. Það hefur nú verið gert og málið komið til meðferðar hjá dómstólum.

Sú staðreynd að ríkissaksóknari fyrirskipaði að héraðssaksóknari gæfi út ákæru í málinu bendir til þess að ríkissaksóknari telji meiri líkur en minni á sakfellingu.

Meintum nauðgara dæmdar bætur frá kærasta

Kærasti konunnar fékk á dögunum fimm mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa ráðist á ákærða í Krónunni í fyrrasumar. Var kærastinn við afgreiðslukassann ásamt konunni. Konan hneig niður þegar hún sá manninn og brást kærastinn við með því að ganga aftan að manninum og kýla með krepptum hnefa í andlitið.

Í framhaldinu kýldi hann manninn áfram í andlitið þar sem hann lá á gólfinu. Hann viðurkenndi brotið en bar fyrir sig að hafa misst stjórn á skapi sínu. Honum var gert að greiða meintum nauðgara 400 þúsund krónur í skaðabætur sem og allan sakarkostnað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×