Tónlist

Litli frændi forsetans kveikir í internetinu

Stefán Þór Hjartarson skrifar
JóiPé og KRÓLI eru að gera allt vitlaust með nýjasta laginu sínu B.O.B.A.
JóiPé og KRÓLI eru að gera allt vitlaust með nýjasta laginu sínu B.O.B.A. Vísir/Anton Brink
Á mánudaginn kom lagið B.O.B.A. með þeim JóaPé og KRÓLA út á YouTube og hefur vægast sagt verið vel tekið í þetta hressa lag þeirra drengja. Það er til að mynda komið í 70 þúsund spilanir þegar þessi orð eru rituð og trónir á toppnum yfir vinsælustu myndböndin á landinu.

Þessar tölur gætu mögulega verið Íslandsmet, en erfitt er að segja til um það.

„Þetta eru búnar að vera mjög góðar viðtökur – eiginlega alveg rosalegar. Ég bjóst alls ekki við þessu, bara svolítið,“ segir JóiPé, eða Jóhannes Damian Patreksson eins og hann heitir.

Kannski er vert að minnast á það áður en við höldum lengra að Patrekur Jóhannesson er faðir hans – og forseti Íslands þá föðurbróðir hans. KRÓLI er Kristinn Óli Haraldsson.

Plata á föstudag

JóiPé gaf í sumar út lagið Ég vil það með söngvaranum Chase, sem rauk einnig upp vinsældalistann.

„Við erum að gefa út plötu á föstudaginn. Þetta er átta laga plata sem heitir GerviGlingur. Við erum búnir að vera að vinna hana með Starra [úr Landabois] og Þormóði – Þormóður er frá Ísafirði og gerði taktinn við B.O.B.A. Síðan er það hann Darri sem hefur verið að mixa og mastera plötuna," segir JóiPé.

„Þetta var mjög skemmtilegt ferli en samt gaman að vera búinn að klára. Það verður útgáfupartí á laugardaginn á Prikinu. DJ Egill Spegill hitar upp og svo tökum við lög af plötunni. Landabois spila líka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×