Innlent

Grunaður um líkamsárás og heimilisofbeldi

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla stöðvaði mann sem ók á 143 kílómetra hraða í Ártúnsbrekkunni í nótt.
Lögregla stöðvaði mann sem ók á 143 kílómetra hraða í Ártúnsbrekkunni í nótt. vísir/eyþór
Karlmaður var handtekinn í heimahúsi í Grafarholti um klukkan 21 í gærkvöldi, grunaður um líkamsárás og heimilisofbeldi.

Nánari málsatvik koma ekki fram í skeyti lögreglu og þar segir heldur ekkert um afdrif þolandans, en árásarmaðurinn er nú vistaður í fangageymslu.

Þá segir í dagbók lögreglu að bíll hafi verið mældur á 143 kílómetra hraða í Ártúnsbrekku á tíunda tímanum í gærkvöldi. Virti ökumaður stöðvunarmerki lögreglu að vettugi og stakk af.

Honum var veitt eftirför og náðist að stöðva hann á Reykjanesbraut við Smáralind. Reyndist hann vera undir áhrifum fíkniefna auk þess sem hann verður kærður fyrir svigakstur, eða glæfraakstur, vanrækslu á merkjagjöf og fleira, segir í skeyti lögreglu.

Lögreglan á Akureyri stöðvaði líka nokkra ökumenn fyrir of hraðann akstur í Öxnadal í gærkvöldi en þeir óku á 110 til 130 kílómetra hraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×