Innlent

Guðný Halldórsdóttir vill nýjan Þingvallaveg burt úr Mosfellsdal

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Þótt hámarkshraði í Mosfellsdal hafi verið lækkaður í 70 eftir kröfur frá íbúum er umferðin alltof mikil, segir Guðný Halldórsdóttir.
Þótt hámarkshraði í Mosfellsdal hafi verið lækkaður í 70 eftir kröfur frá íbúum er umferðin alltof mikil, segir Guðný Halldórsdóttir. vísir/gva
Guðný Halldórsdóttir, kvikmyndaleikstjóri í Melkoti, leggur til að Þingvallavegur verði ekki endurbyggður í Mosfellsdal eins og til stendur heldur verði færður suður í sitt gamla vegstæði um Mosfellsheiði.

Guðný Halldórsdóttir
Í athugasemd við nýja deiliskipulagstillögu segir Guðný nýjan veruleika kominn upp. Hún segir 98 prósent þeirra sem fara um Þingvallaveg vera ferðamenn að fara Gullna hringinn svokallaða. Stanslaus umferð hafi verið á jóladag. Fyrir fimm árum hafi ekki sála verið á ferð á þeim tíma.

„Allt hófst þetta fyrir alvöru þegar vegurinn yfir Lyngdalsheiði var lagaður og betrumbættur. Þá jókst umferðin rosalega,“ skrifar Guðný. Betrumbætur á veginum um Kjósarskarð og Uxahryggi eigi eftir að auka álagið af gegnumstreymi bíla enn frekar. Hún nefnir blómlega starfsemi víða um Mosfellsdal sem muni gjalda fyrir áformuð hringtorg, undirgöng og nýja vegi innan sveitarinnar.

„Hætt er við að þessi búsældarlegasti hluti sveitarinnar láti á sjá með þeim risavöxnu samgöngumannvirkjum sem fyrirhuguð eru – einungis með það í huga að liðka fyrir gegnumstreymi til Þingvalla og austur í sveitir,“ segir í bréfi Guðnýjar sem vill að frekar verði horft til vegstæðis gamla Þingvallavegarins. Hann var lagður 1890-1896 og liggur austur yfir Mosfellsheiði frá Geithálsi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×