Erlent

Sprenging í frönsku kjarnorkuveri

atli ísleifsson skrifar
Kjarnorkuverið í Flamanville í norðvesturhluta Frakklands.
Kjarnorkuverið í Flamanville í norðvesturhluta Frakklands. Vísir/AFP
Sprenging varð í kjarnorkuverinu í Flamanville í norðvesturhluta Frakklands í morgun.

Fyrstu fréttir benda til að einhverjir starfsmenn hafi slasast, en að ekki sá hætta á að geislavirk efni hafi lekið út í andrúmsloftið.

Franski fjölmiðillinn Ouest France greinir frá því að sprengingin hafi orðið um klukkan 10 að staðartíma í morgun. Slökkvilið er mætt á staðinn til að slökka eldinn.

Kjarnorkuverið í Flamanville er á Cotentin-skaga í La Manche. Þar eru tveir kjarnaofnar sem smíðaðir voru á níunda áratugnum og er verið að smíða þann þriðja.

Frakkland er eitt af ríkjum heims sem hlutfallslega nýta hvað mesta kjarnorku sé miðað við höfðatölu. Í landinu eru 58 kjarnaofnar í nítján verum. Talið er að kjarnorka standi undir 75 prósent af orkuþörf landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×