Tónlist

Hætt að semja fyrir skúffuna

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Hildur Vala Einarsdóttir.
Hildur Vala Einarsdóttir. Vísir/Eyþór

Hildur Vala söng sig inn í hjörtu þjóðarinnar fyrir 12 árum í sjónvarpsþættinum Idol stjörnuleit. Hún hvarf úr sviðsljósinu í nokkur ár og tónlistin hennar endaði ofan í skúffu. Nú er komið út nýtt lag og plata á leiðinni. Hún segist gera hlutina á eigin forsendum.

Sem og allt annað, er heitið á nýju lagi tónlistarkonunnar Hildar Völu Einarsdóttur. Von er á nýrri plötu eftir áramótin sem verður þriðja plata Hildar en sú fyrsta kom út 2005 þegar Hildur sigraði hjörtu þjóðarinnar með flauelsmjúkri röddu í sjónvarpsþættinum Idol stjörnuleit.  Önnur plata hennar, La la la kom út árið eftir en eftir það hvarf Hildur úr sviðsljósinu að mestu. Hún segir áhuga sinn á tónlist hafa dofnað á tímabili en þó hafi hún alltaf samið lag og lag sem enduðu öll ofan í skúffu. Loks kom að því að lögin vildu upp úr skúffunni.

„Það hefur safnast upp hjá mér dágóður lagabunki yfir árin og hann var farinn að kalla á að komast út. Annað slagið hefur hellst yfir mig þörf fyrir að gera eitthvað við bunkann en alltaf eitthvað annað komið upp á, lífið, það bara gerist. Það hafa komið tímabil þar sem ég hef einfaldlega verið önnum kafin. Stundum hef ég bara ekki haft nógu mikinn áhuga,“ segir Hildur.

„Það hefði verið mjög auðvelt fyrir mig að gefa eitthvað út, maðurinn minn er tónlistarmaður og við eigum allar græjur til verksins. Ég vildi hins vegar ekki syngja „bara“ til þess að syngja, ég var ekki búin að átta mig á því hvað ég vildi í raun gera. Núna kom allt í einu tækifærið og ég er mjög áköf og spennt að vinna lögin mín meira. Ég var sjálf búin að bíða lengi.“

Virkja hæfileika stelpna

Hildur hefur látið til sín taka í rokksumarbúðunum Stelpur rokka! Hún segir nauðsynlegt að virkja kraumandi sköpunarkraft stelpna út í tónlistargeirann og vekja athygli á tónlist kvenna.

„Stelpur eru svo oft undir pressu um að þær verði að standa sig svo vel og kýla þess vegna síður á hlutina. Ég hef sjálf dottið í þá gildru og ég dáist að öllum þessum ungu stelpum í dag sem eru að semja sína eigin tónlist og gefa út. Formið er svo breytt með öllum þessum samskiptamiðlum og svo mikið af hæfileikum sem þurfa að komast út.

Stelpur rokka! eru stórkostleg samtök sem starfa við að efla stelpur og transkrakka í gegnum tónlistarsköpun og gefa þeim rými til þess að búa til tónlist, rappa, pönkast og koma fram á tónleikum. Verkefnið er meðal annars einn vinkill á því að reyna að rétta kynjahallann í tónlistinni. Þau læra á hljóðfæri, fræðast um ýmsar hliðar tónlistar, meðal annars um tónlistarsögu kvenna, sem vill oft gleymast, jafnréttisbaráttu og kynnast farsælum tónlistarkonum. Þarna myndast einhverjir töfrar sem leyfa sköpunarkraftinum að brjótast út. Það er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri.“

Þegar Hildur horfir til baka finnst henni skrítið að hafa tekið þátt í Idol. Það reyndist hinsvegar hið besta mál.Vísir/Eyþór

Hjálpaði þessi vinna ef til vill við að þú sóttir lögin þín ofan í skúffuna? 

„Ég hef orðið fyrir áhrifum og fengið innblástur frá öllum sem ég hef kynnst í gegnum Stelpur rokka! og í gegnum KÍTÓN en ég sit í stjórn þar. Þetta þarf ekkert að vera flókið en maður hugsar alltaf: „Ég verð að fara að gera eitthvað, það eru allir að bíða!“ Og þannig verður til svo mikil pressa og allt þarf að vera svo flott.

Ég hef ansi oft heyrt spurninguna: „Jæja, á nú ekki að fara að gera eitthvað?“ segir Hildur sposk.

Hún vilji hins vegar gera hlutina á eigin forsendum. „Ég er að gera þetta fyrir mig fyrst og fremst.“

Skrítið að hafa tekið þátt í Idol

Var þátttakan í Idol á sínum tíma jafnvel eitthvað sem hentaði þér ekki? 

„Jú, auðvitað er þetta sniðugur vettvangur fyrir þá sem langar að syngja og koma sér á framfæri og líka fyrir þá sem langar kannski bara til að skemmta sér. Þegar ég horfi til baka finnst mér samt mjög skrítið að ég hafi tekið þátt í svona keppni. Það er ekki líkt mér, ég tók ekki einu sinni þátt í Söngvakeppni framhaldsskólanna. Ég var ekkert sérstaklega framfærin. En, þess vegna finnst mér frábært að ég skuli hafa gert þetta og ekki bara tekið þátt heldur unnið! Ég veit ekki hvað ýtti mér út í þetta. Eftir sigurinn fékk ég að gera plötu og þá kynntist ég manninum mínum. Kannski hafði þetta allt einhvern tilgang,“ segir Hildur Vala hlæjandi en hún er gift Jóni Ólafssyni tónlistarmanni. Saman eiga þau þrjú börn, tvo stráka, ellefu og átta ára, og tveggja ára stelpu.

Spurð hvernig sambúð tveggja tónlistarmanna gangi upp segir hún mikils virði þegar fólk hafi skilning á áhugamálum og störfum hvort annars.

„Við skiljum hvort annað svo vel. Ég samgleðst honum þegar hann er að fara í eitthvert skemmtilegt verkefni, þó hann þurfi að vera í burtu og finnst dásamlegt að geta deilt þessu áhugamáli með honum,“ segir hún. Fjölskyldulífið eigi einnig vel við hana.

Fjölskyldan, Hildur Vala, Jón og krakkarnir, Jökull 11 ára, Kári Kolbeinn 8 ára og Þórhildur Júlía 2 ára.

Strákarnir á kafi í tónlist

„Ég hef mjög gaman af öllu barnastússi og finnst börn alveg ótrúlega skemmtileg og gaman að vera með þeim. Við Jón gátum verið heima með strákana þar til þeir urðu tveggja ára. Ég vil gera þetta vel og það er mjög krefjandi starf að ala upp börn,“ segir hún og hlær. 

„Maður er stöðugt að læra hvernig best er að gera þetta. Það þarf mikla skipulagshæfni til að finna tíma fyrir sjálfan sig. Ég var í háskólanámi, lærði grunnskólakennara og fór í framhaldsnám í kennslu. Ég fór einnig í FÍH. Báðar lokaritgerðirnar mínar fjölluðu reyndar um konur í tónlist svo ég hef alltaf eitthvað vasast í þessum málum. Strákarnir okkar eru alveg á kafi í tónlist, spila báðir á píanó og hafa mikinn áhuga. Sá eldri spilar daginn út og inn og núna er það harmóníka. Það getur verið krefjandi fyrir fjölskylduna, hann spilar ekki lágt,“ segir Hildur brosandi. Hún segist finna slökun í því að semja og syngja.

„Ég spila fótbolta með FC Ógn og finnst það ótrúlega skemmtilegt. Ég nýt þess líka að vera úti í náttúrunni og hleyp aðeins. Annars finnst mér afar notalegt að lesa og fer mikið á bókasafnið.“

„Ég sest bara við píanóið eða gríp gítarinn og fer út í skúr. Mér finnst þetta svo gaman að ég næ yfirleitt ekki að klára eitt lag áður en ég byrja á öðru. Það er líka viss slökun og hugleiðsla að búa til tónlist og syngja. Það er líka mikil slökun í því að hlusta á tónlist og ég er að reyna að gera meira af því. Það komu tímabil þar sem ég hlustaði ekkert á tónlist, hafði hreinlega ekki áhuga. Sem er mjög skrítið,“ segir Hildur Vala.

Frístundirnar nýti hún einnig í útivist og dembi sér á fótboltaæfingar. Stefnan sé einnig að minnka hangsið á netinu.

„Ég spila fótbolta með FC Ógn og finnst það ótrúlega skemmtilegt. Ég nýt þess líka að vera úti í náttúrunni og hleyp aðeins. Annars finnst mér afar notalegt að lesa og fer mikið á bókasafnið. Maður eyðir tímanum oft í svo mikið rugl á netinu svo ég ætla að lesa meira. Nú reyni ég líka að hlusta markvisst á plötur. Líka svo strákarnir læri að hlusta á plötur og upplifi notalegheitin sem fylgja því.“

Nýja platan kemur út eftir áramót en Hildur mun blása til sinna fyrstu tónleika í nokkur ár, þann 10. október, á Rosenberg. Spurð hvort þetta sé byrjunin á nýjum kafla í lífinu segir Hildur það geta vel verið en að hún geri ekki endilega langtímaplön.

„Ég á mér sjálfsagt einhverja drauma en svo kannski breytist það allt í einu, ég ætla bara að sjá til. Ég veit að ég vil halda áfram að styðja stelpur í tónlist.“

Hildur segist finna slökun í því að semja og syngja.Vísir/Eyþór





Fleiri fréttir

Sjá meira


×