Lögð hafa verið fram drög að frumvarpi til breytinga á ákvæðum almennra hegningarlaga um mútur. Breytingarnar fela í sér hertari viðurlög við mútubrotum en markmiðið er að uppfylla tilmæli vinnuhóps Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um erlend mútubrot.
Gert er ráð fyrir að hámarksrefsing fyrir brot um mútuboð gagnvart opinberum starfsmönnum verði þyngd úr fjögurra ára fangelsi í sex ára fangelsi. Þá er lagt til að hámarksrefsing fyrir mútubrot í atvinnurekstri verði þyngd úr þriggja ára fangelsi í fimm ára fangelsi.
Frumvarpsdrögin fela jafnframt í sér að hugtakið opinber starfsmaður geti átt við stjórnendur og starfsmenn lögaðila sem séu að hluta eða heild í opinberri eigu eða lúta stjórn hins opinbera.
Stjórnandinn og starfsmenn þurfa þá að vera í þeirri stöðu að hafa heimildir í lögum til að taka eða hafa áhrif á ákvarðanir um réttindi og skyldur einstaklinga eða lögaðila og að þeir geti ráðstafað eða haft áhrif á ráðstöfun opinberra hagsmuna eða fjármuna, að því er segir í drögunum.
Þá segir í drögunum að rökin fyrir þyngingu refsinga vegna mútubrota almennt þau að um sé að ræða alvarleg brot sem meðal annars veikja traust á stjórnkerfinu. Brotin stríði gegn almannahagsmunum og heilbrigðu viðskipta- og atvinnulífi, bæði hérlendis og í alþjóðaviðskiptum.
Dómsmálaráðherra leggur fram frumvarpið en það er unnið í samráði við stýrihóp hans um eftirfylgni vegna innleiðingar alþjóðlegra tilmæla um aðgerðir gegn spillingu og mútum.
Vilja þyngri refsingar við mútum
Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
