Innlent

Eyjamenn fá 80 stiga hita úr sjónum og kælivatn í bónus

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sjórinn umhverfis Vestmannayjar verður nýttur til að hita upp hýbýli Eyjamanna með smíði næststærstu varmadælustöðvar heims. Verkefnið kostar tólfhundruð milljónir króna. Fjallað var um málið í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan, en þar var rætt við Ívar Atlason, tæknifræðing hjá HS veitum. 

Það varð heimsfrægt þegar Eyjamenn lögðu hraunhitaveituna úr rjúkandi hrauninu. Nú verður sjórinn hitaveita þeirra Eyjamanna. Hafnarsvæðið í kringum Friðarhöfn er sundurgrafið þessa dagana. Jarðvinnuverktakar, byggingamenn og hönnuðir er að smíða varmadælu fyrir HS veitur upp á ellefu megavött.

„Þetta verður næst stærsta sjóvarmadælustöð í heimi. Einungis stöðin í Drammen í Noregi er stærri,” segir Ívar.

Ívar Atlason, tæknifræðingur hjá HS veitum.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Við ætlum að nota sem varmagjafa sjóinn. Auðlindin okkar er Atlantshafið. Við höfum nær endalaust magn af sjó.”

Við sprönguna undir Hánni rís kyndistöð en í hana verður dælt miklu magni af sjó þar sem nokkrar hitagráður verða kreistar úr sjónum með varmaflutningi og dælt inn á hitaveitukerfi bæjarbúa sem 80 stiga heitt vatn.

Það ferli mun koma útgerðum og fiskvinnslufyrirtækjum bæjarins til góða, sem kælivatn fyrir vinnslustöðvar og fiskiskip. Sjórinn fer úr 7-8 gráðum niður í um það bil tvær gráður og fiskvinnslan þarf þá ekki að eyða orku í að kæla sjóinn. 

Frá framkvæmdum við Friðarhöfn.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Áætlað er að verkefnið kosti tólfhundruð milljónir króna og það er talið borga sig. 

„Með því að nota sjó sem varmagjafa og varmadælur erum við að spara tvo þriðju í raforkukaupum. Við þurfum minna rafmagn til að hita upp vatn. Tveir þriðju af orkuþörfinni koma úr sjónum, sem er ókeypis orka,” segir Ívar. 

Áformað er að varmadælustöðin verði tilbúin næsta vor.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.