Innlent

Heilbrigðiskerfið ekki einkavætt frekar

Kjartan Kjartansson skrifar
Svandís (t.v.) og Lilja (t.h.) voru gestir í Víglínuninni á Stöð 2 í dag.
Svandís (t.v.) og Lilja (t.h.) voru gestir í Víglínuninni á Stöð 2 í dag. Vísir
Svandís Svavarsdóttir, nýr heilbrigðisráðherra, ætlar að láta það verða eitt sitt fyrsta verk í embætti að gera ítarlega úttekt á stöðu einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu. Ekki verði gengið lengra í einkavæðingarátt á hennar vakt.

Þetta sagði Svandís í þættinum Víglínunni með Heimi Má Péturssyni á Stöð 2 í hádeginu. Vinstri græn hefðu haft áhyggjur af einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Taldi hún mikilvægast að kjarni velferðarþjónustunnar væri á forsendum heildarinnar en ekki einstaklinga og að almannakerfið yrði eflt.

Skilgreina þyrfti hlutverk mismunandi þátta heilbrigðisþjónustunnar til að opinbert fé verði nýtt með sem bestum hætti og almenningur njóti jafnræðis, óháð efnahag og búsetu.

Lofaði Svandís því að það muni endurspeglast í tillögum ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpi sem verði lagt fram á næstu dögum. Stærstu tölurnar þar verði til uppbyggingar innviða í velferðar- og menntamálum.

Áskoranir vegna kennaraskorts og brottfalls nemenda

Lilja Alfreðsdóttir, nýr menntamálaráðherra, var einnig gestur þáttarins. Hún sagði stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks framsýnan varðandi heilbrigðis- og menntamál. Þannig væri sagt beinum orðum að ætlunin væri að ná markmiðum OECD um fjárframlög á hvern nemanda á háskólastiginu. Ljóst væri að milljarða króna þyrfti á næstu árum til að ná því markmiði.

Sagði Lilja íslenskt menntakerfi gott hvað varðaði aðgengi en að það stæði einnig frammi fyrir miklum áskorunum. Þar nefndi hún sérstaklega yfirvofandi kennaraskort og brottfall nemenda, sérstaklega drengja á framhaldsskólastiginu.

Lýsti hún áhyggjum af því að þeir sem færu í kennaranám á Íslandi skiluðu sér ekki eða aðeins í skamman tíma í kennslu.

Í því samhengi nefndi Heimir Már yfirvofandi kjaraviðræður, meðal annars við kennara. Lilja sagði að kröfum kennara yrði mætt með skilningi. Sagði hún bæði laun og starfsumhverfi spila inn í að kennurum væri að fækka.

Ætla að leiðrétta mistök með erlenda nema og verknámx

Heimir Már spurði ráðherrana sérstaklega út í mál ungrar erlendrar konu sem hefur verið við kokkanám hér á landi í tvö ár og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Til stendur að vísa henni úr landi vegna þess að ekki var kveðið á um verk- og iðnnám við veitingu dvalarleyfa þegar útlendingalögum var breytt.

Bæði Lilja og Svandís töluðu um að þar hefðu átt sér mistök við lagasetningu sem stæði til að leiðrétta. Lilja sagði að það ætti að takast í tæka tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×