Breytt landslag blasir við lögreglunni þar sem fíkniefnasala fer nú mikið til fram á netinu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók fyrir skömmu tuttugu manns sem seldu fíkniefni á samfélagsmiðlum og lokuðu í samstarfi við Facebook áttatíu sölusíðum í kjölfarið.
Eiturlyfjasala á netinu hefur færst í aukana um allan heim undanfarin ár en BBC fjallaði nýverið um hollenska rannsókn sem gerð var á umfangi slíkrar sölu. Ísland er ekki undantekning frá þessari þróun en hér á landi hefur smásala fíkniefna færst að miklu leyti af götunni yfir á samfélagsmiðla.
Meðlimir hópanna um tvö þúsund talsins
Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögreglan hafi gert átak í rannsóknum á þessum málum fyrir ekki svo löngu síðan.
„Rannsókn leiddi í ljós að við fundum áttatíu sölusíður eða lokaða hópa þar sem verið var að falbjóða fíkniefni. Notendur eða meðlimir hópanna voru rúmlega tvö þúsund – misjafnlega stórir þessir hópar reyndar – og í kjölfarið voru handteknir tuttugu einstaklingar. Síðunum var síðar lokað í samstarfi við Facebook í kjölfarið á þessu,“ segir Friðrik Smári.
Í aðgerðunum lagði lögreglan hald á töluvert magn fíkniefna, þó aðallega kannabis, sem er það efni sem mest er selt af á netinu.
Friðrik Smári segist gera ráð fyrir að nýjar síður spretti upp jafnóðum og öðrum er lokað en lögreglan hefur ekki ekki mannafla til að fylgjast stöðugt með síðunum.
„Lögeglan á við manneklu að stríða og niðurskurð í fjárveitingum þannig að það þarf að forgangsraða í þessum málaflokki eins og öðrum. Við höfum einbeitt okkur að því að reyna að minnka framboð fíkniefna og einbeita okkur að því að hafa hendur í hári innflytjenda efna og stórdreifenda.“
Fíkniefnadeild lögreglunnar var nýverið sameinuð rannsóknardeildinni en það er að hluta til vegna breytts landslags fíkniefnasölu. Þörf er á fleiri tölvusérfræðingum í slíkar rannsóknir.
„Það er þörf á því og það er verið að vinna í því að koma upp teymi sem getur einbeitt sér að tölvurannsóknum og þessum netglæpum sérstaklega og þar með fíkniefnaafbrotum á netinu líka,“ segir Friðrik Smári.
