Innlent

Ungmenni sinntu gæslu við gatnalokanir í Tour of Reykjavík

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Tour of Reykjavik fór fram í Reykjavík og nágrenni í dag.
Tour of Reykjavik fór fram í Reykjavík og nágrenni í dag.
Víðtækar gatnalokanir voru á höfuðborgarsvæðinu í dag vegna hjólreiðaviðburðarins Tour of Reykjavik. Keppnin stóð frá hálf níu í morgun þar til um tvöleytið en að sögn lögreglu var umferð afar þung víða á höfuðborgarsvæðinu vegna lokananna.

Nokkur óánægja var meðal akandi vegfarenda en athugasemdum og fyrirspurnum hefur rignt inn á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Óánægjan sneri ekki aðeins að gatnalokununum heldur hvernig staðið var að framkvæmd þeirra. Gæslumenn við lokanirnar hafi í mörgum tilfellum verið ungmenni en Árni Friðleifsson hjá lögreglunni fullyrti í samtali við Vísi að slíkt væri ótækt.

„Við verðum að gera þá kröfu að þetta sé fólk sem er ekki á þessum aldri sem við sáum í dag.“

Samkvæmt Árna fer Reykjavíkurborg með veghald í borginni og borgaryfirvöld þurfa að veita heimild til gatnalokana á viðburði sem þessum. Þegar götum er lokað gerir lögreglan kröfu um að lokunarefni og mannskapur sé við lokanirnar.

Yfirleitt þegar lokanir að þessu umfangi eru gerðar eru fengnir sjálfboðaliðar frá íþróttafélögum eða björgunarsveitum til þess að sinna gæslu við lokanir.

„Aðstandendur Reykjavíkurmaraþons fá sjálfboðaliða úr íþróttafélögunum. Þegar Menningarnótt er haldin þá hefur Reykjavíkurborg samið við björgunarsveitir um að sinna þessari gæslu. Við sáum þetta í morgun og erum búnir að koma athugasemdum á framfæri við skipuleggjendur viðburðarins,“ segir Árni.

Hann telur þó að lokanirnar hafi í heildina gengið ágætlega þrátt fyrir hnökra á framkvæmdinni. 


Tengdar fréttir

Hjólakeppni við allra hæfi

Tour of Reykjavík fer fram í fyrsta skipti á sunnudag. Hjólakeppnin er ætluð öllum aldurshópum enda boðið upp á mismunandi vegalengdir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×