Langstökkvarinn Darija Klisjina hefur nú fengið leyfi að keppa í langstökki á leikunum en þó ekki undir merkjum Rússa. Hún keppir fyrir óháða.
Alþjóðafrjálsíþróttasambandið var búið að gefa henni grænt ljós og nú hafa mótshaldarar í Ríó einnig veitt henni endanlega þátttökurétt.
Darija Klisjina var ein af 136 Rússum sem sóttu um undanþágu frá banni Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins en hún var sú eina sem náði í gegn.
Darija Klisjina er búsett í Bandaríkjunum og það hefur örugglega hjálpað henni í umsókn sinni enda átti rússneska lyfjasvindlið sér stað bak við luktar dyr í Rússlandi.
Rússar ætluðu að senda 68 manns til leiks í frjálsíþróttakeppni leikanna, að Klisjinu meðtaldi, en Alþjóðafrjálsíþróttasambandið lokaði þá eftir að allt lyfjahneykslið í Rússlandi kom fram í dagsljósið.
Darija Klisjina er 25 ára gömul og hefur tvisvar orðið Evrópumeistari innanhúss. Hún vann brons á EM utanhúss 2014 en endaði í tíunda sæti á síðasta HM. Þetta verða hennar fyrstu Ólympíuleikar.
Hún sló í gegn ung að árum þegar hún varð bæði heims- og Evrópumeistari unglinga.
