Innlent

Þefnæmur skólabílstjóri og nágranni með garðslöngu til bjargar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Potturinn skíðlogaði á áttunda tímanum í morgun en kviknað hafði út frá búnaðinum sem hitar vatnið í pottinum.
Potturinn skíðlogaði á áttunda tímanum í morgun en kviknað hafði út frá búnaðinum sem hitar vatnið í pottinum. Mynd/Pétur Davíðsson
Telja má líklegt að góð veðurskilyrði og heppileg tímasetning hafi orðið til þess að ekki fór verr þegar kviknaði í heitum potti í Vatnsendahlíð í Skorradal í morgun. Pétur Davíðsson, íbúi á nálægum bæ, kom á vettvang á áttunda tímanum í morgun og þá skíðlogaði potturinn.

Snör handtök Péturs, eiginkonu hans og tveggja nágranna urðu til þess að hægt var að halda eldinum niðri með garðslöngu þar til slökkvliðið kom á Hvanneyri kom á svæðið og slökki eldinn.

„Ef það hefði kviknað í klukkan tvö eða þrjú í nótt væri enginn bústaður,“ segir Pétur í samtali við Vísi.

Fann brunalykt

Pétur lýsir því þannig að glöggur slökkviliðsmaður og skólabílstjóri hafi fundið brunalykt um klukkan korter yfir sjö í morgun. Sá hafði ekki tök á því að grennslast fyrir hvaðan reykurinn kom enda á skólabílsvaktinni.

„Ég rýk út, fer í rannsóknarferð og finn í myrkrinu hvar logar,“ segir Pétur. Hann segist hafa í fyrstu talið að bústaðurinn hlyti að vera farinn, svo mikill var eldurinn, en svo sá hann að eldurinn var enn aðeins í pottinum en farinn að teygja sig í pallinn. Hann ræsti slökkviliðið út um leið og fór í að reyna að finna vatn. Þá kom eiginkona Péturs til aðstoðar.

Eftir að hafa náð í eiganda sumarbústaðarins símleiðis og fengið leiðbeiningar um aukalykla komst Pétur inn í sumarbústaðinn og gat opnað fyrir rennsli vatns. Í framhaldinu komu tveir nágrannar á vettvang og nýttu þau garðslönguna til að halda aftur af eldinum sem náði fyrir vikið ekki að teygja sig í húsið.

Skorradalurinn púðurtunna

„Ef potturinn hefði verið upp við bústaðinn, eins og oft er, þá hefði farið að skíðloga í bústaðnum,“ segir Pétur.

Hann er vel inni í málum þegar kemur að brunavörnum enda er um að ræða stöðugt áhyggjuefni íbúa og landeigenda í Skorradal. Er skemmst að minnast þegar kviknaði eldur í dalnum fyrir rúmum þremur árum út frá flugeldi. Þá, líkt og nú var mikil mildi að logna var í Skorradal.

Þá minnti slökkviliðsstjórinn Bjarni Kristinn Þorsteinsson á að Skorradalurinn væri púðurtunna í miklum þurrkum.

„Ástandið getur orðið mjög hættulegt vegna veðurfarsbreytinga,“ sagði Bjarni. Sökum þéttleika sumarhúsabyggðarinnar gæti eignatjón orðið verulegt ef eldur læsir sig í gróðurinn á svæðinu. Þá er hugsanlegt að fólk verði innlyksa vegna gróðurelda á svæðinu.


Tengdar fréttir

Aðeins ein viðbragðsáætlun til vegna gróðurelda

Búnaði og þjálfun slökkviliða er ábótavant með tilliti til gróðurelda. Sveitarfélög hafa enga burði til að bregðast við sífellt meiri hættu á miklum gróðureldum. Aðgerða er þörf strax var mat innan fjögurra lögregluumdæma árið 2011.

Sjóðandi heitt vatn setur menn og dýr í stórhættu

Hluti af hitaveitulögnum Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í Skorradal er úr sér genginn og skapar stórhættu fyrir menn og dýr. Ein lögnin fór sundur í gær með þeim afleiðingum að þúsundir lítra af 90 gráðu heitu vatni láku út og mynduðu stóra tjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×