Bíó og sjónvarp

Game of Thrones: Skriðin út úr skelinni?

Samúel Karl Ólason skrifar
Sansa Stark og Theon Greyjoy, skömmu eftir að þau stukku fram af veggjum Winterfell.
Sansa Stark og Theon Greyjoy, skömmu eftir að þau stukku fram af veggjum Winterfell. Vísir/HBO
Hér að neðan verður fjallað sérstaklega um síðasta þátt Game of Thrones. Nokkur atriði sem féllu í skuggann af öðrum. Einnig verður aðeins rifjað upp úr A Song of Ice and Fire bókunum og þriðju þáttaröð Game of Thrones.Að endingu verður velt upp framtíð þáttanna.Þið sem hafið ekki horft á síðasta þátt og/eða viljið ekki vita meira, viljið ef til vill ekki lesa lengra.

Í rauninni er skrítið ef þið eruð búin að lesa þetta langt. Hvað eru þið að pæla?


Síðasti þáttur Game of Thrones hefur verið mikið á milli tannanna á fólki. Við fengum upplýsingar um uppruna White Walkers og Hodor og vinalegi risinn yfirgaf sviðið á hetjulegan hátt (allavega þar til og ef hann snýr aftur sem einn af hermönnum WW).

Eitt atriði féll þó svolítið í skuggann af hinum. Það er þegar Sansa virtist skríða út úr skelinni sinni og lét Petyr Baelish, eða Littlefinger, heyra það fyrir þá ákvörðun að senda hana til Ramsay Bolton.

Samskipti þeirra tveggja gætu verið mun mikilvægari en margir gerðu sér grein fyrir.

„Vissir þú hvað Ramsay er?“ spurði hún Littlefinger. „Ef þú vissir það ekki ertu fífl. Ef þú vissir það, ertu óvinur minn. Viltu heyra hvað gerðist á brúðkaupsnóttinni okkar?“ Hún gekk jafnvel svo langt að hóta því að láta Brienne drepa hann.

Í fyrstu þáttaröð Game of Thrones var Sansa eiginlega bara óþolandi. Barnaleg og hrokafull prinsessa. Svo fóru áhorfendur að vorkenna henni. Pabbi hennar og vinir voru myrtir og hún var fangi Joffrey Baratheon og var gift Tyrion Lannister. Vorkun áhorfenda náði svo hámarki í síðustu þáttaröð.

Nú er Sansa komin með bein í nefið og virðist vera tilbúin til að taka að sér leiðtogahlutverk í norðrinu. Hún lét Littlefinger heyra það og hann virtist vera smá skelkaður. Littlefinger sagðist ætla að gera allt sem hann gæti til að hjálpa Sönsu og bauð henni aðstoð sína.

Littlefinger bauð Sönsu her sinn og hún neitaði. Þá benti hann henni á að frændi hennar Brynden Tully hefði safnað saman her í Riverlands og gæti hjálpað henni. (Til að rifja upp hver Brynden Tully er, þá er hann harðjaxlinn í þessum atriðum úr þriðju þáttaröð.)

Tully slapp frá rauða brúðkaupinu og virðist nú hafa safnað saman her.

Um leið og Littlefinger virtist sannfærður um að Sansa myndi ekki láta drepa hann setti hann þó upp gamla hroka-svipinn og benti henni á að hún ætti ekki her. Hálf-bróðir hennar ætti her.

Hvað vakir fyrir Littlefinger?

Littlefinger hefur tekið við stjón í The Vale (Sjá á þessu korti) í gegnum hinn snarruglaða frænda Sönsu, Robbyn Arryn. Þið munið ef til vill eftir honum úr fyrstu þáttaröðinni þar sem hann var á brjósti móður sinnar, sem Littlefinger giftist og myrti svo.

Her Vale er nú í Moat Cailin og tilbúinn til að berjast gegn Bolton ættinni og mögulega Sönsu og Jon.

Í síðustu þáttaröð samdi Littlefinger við Roose Bolton um að Ramsay og Sansa yrðu gift. Með þeirri giftingu sleit Bolton ættin samstarfi sínu við krúnuna í Kings Landing, þar sem Sansa er grunuð um að hafa eitrað fyrir Joffrey. (En í rauninni var það Littlefinger og hin skemmtilega Olenna Tyrell sem myrtu konunginn.)

Eftir brúðkaupið fór Littlefinger til Kings Landing og samdi við Cersei Lannister um að hann myndi sigra Bolton ættina, með hernum sem hann stjórnaði í The Vale. Í staðinn fengi hann yfirráð yfir norðrinu. Hann stjórnar einnig The Riverlands, sem var áður yfirráðasvæði Tully ættarinnar (ætt Catelyn Stark, móður Sönsu). Þar til flestum meðlimum Tully ættarinnar var slátrað í Rauða brúðkaupinu.

Til að átta sig á staðsetningum og vegalengdum í þáttunum er gott að skoða þetta kort hér. Hægt er að skoða breytingar á yfirráðasvæðum og ferðalög karaktera þáttanna.

Það er því greinilega gegn hagsmunum Littlefinger að Sansa og kannski sérstaklega Jon Snow fari að láta til sín taka í norðrinu. Mögulega er það ástæðan fyrir því að „hálf-bróðir“ kommentinu. Hann vill ekki að þau vinni saman og nái Winterfell aftur. Littlefinger vill eiga norðrið.

Svo virðist sem að komment Littlefinger hafi virkað af einhverju leyti þar sem Sansa laug að Jon, þegar hann spurði hana hvernig hún vissi af her Brynden Tully.

Í stað þess að segja honum frá því að Littlefinger væri með her við landamæri norðursins og hefði veitt henni þessar upplýsingar, sagðist hún hafa heyrt af hernum á meðan hún var fangi Ramsay.

Ef Brynden Tully er búinn að safna saman her í Riverlands, þá er það bein ógn við yfirráð Littlefinger þar. Gera má ráð fyrir því að hann sé að skipuleggja eitthvað með því að benda Sönsu á herinn. Mögulega er hann að reyna að laða her Tully úr virki sínu í Riverrun svo hann geti gengið frá honum.

Sama hvað það er, þá er Littlefinger að skipuleggja eitthvað. Í gegnum sögu þáttanna hefur það ekki reynst söguhetjum Game of Thrones vel þegar Littlefinger er að skipuleggja.


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.