Bíó og sjónvarp

Game of Thrones: Fullur eftirsjár

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/HBO
Jæja. Klárum það sem klára þarf.Hér að neðan verður fjallað um sjöttu þáttaröð Game of Thrones.Ef þið, lesendur kærir, kærið ykkur ekki um að vita meira væri best ef þið færuð ekki neðar á þessari síðu.

Það er hægt að ímynda sér Petyr Baelish, eða Littlefinger, sem margt, en margir eiga eflaust erfitt með að ímynda sér hann þar sem hann sýnir iðrun.

Hann hefur ekkert sést í fyrstu þremur þáttum sjöttu þáttaraðar en þó er von á honum. Síðast þegar hann sást sendi hann Sönsu Stark til Ramsay Bolton, og áhorfendum hefur verið svolítið illa við hann síðan. Aidan Gillen sem leikur Littlefinger ræddi nýverið við Entertainment Weekly um karakter sinn í þessari þáttaröð. Hann segir Littlefinger fullan eftirsjár.

Petyr Baelish, eða Littlefinger, sem leikinn er af Aidan Gillen.Mynd/HBO
Leikarinn segir að þrátt fyrir að áhorfendur hafi verið meðvitaðir um hve mikið kvikindi Ramsay Bolton sé, hafi Littlefinger ekki vitað það. Því ætli sér hann í þessari þáttaröð að reyna að bæta fyrir mistök sín. Littlefinger var á árum áður ástfanginn af móður Sönsu og lítur að einhverju leyti á hana sem dótturina sem hann eignaðist aldrei. Jafnvel hafa verið uppi vangaveltur um að hann sé ástfanginn af henni.

Sjá einnig: Aðdáendur reiðir yfir nauðgunaratriði í Game of Thrones

„Þetta er líklega í eina skiptið sem við höfum séð Littlefinger gera mistök. Hann vissi í alvörunni ekki um Ramsay Bolton. Hann hefði þó átt að gera það.“

Allt sem Littlefinger hefur gert hingað til hefur hann gert til að græða á því. Hann lítur á glundroða sem tækifæri til þess að gera sjálfan sig ríkari og valdameiri og hefur hann einmitt skapað mikinn glundroða. Hann fékk Lysu Arryn til að drepa eiginmann sin Jon, sem var góður vinur Ned Stark. Hann plataði Ned til Kings Landing og sveik hann svo. Hann kom að morðinu á Joffrey og kom sökinni á Tyrion og Sönsu, myrti Lysu Arryn og margt fleira.

„Glundroði er ekki gryfja. Glundroði er stigi,“ sagði hann eitt sinn við Varys.

Littlefinger skapar glundroða og græðir á honum. Hann stjórnar nú umfangsmiklum svæðum í Westeros, eins og Riverlands og The Vale. Ætli Littlefinger sér að koma Sönsu til bjargar í norðinu er ekki ólíklegt að hann muni reyna að ná völdum þar líka. Þrátt fyrir að Aidan Gillen vilji trúa því að Littlefinger vilji koma Sönsu til bjargar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.