Enski boltinn

Dortmund sagt tilbúið að borga tæpa tvo milljarða fyrir Gylfa Þór

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðson hefur spilað frábærlega með Swansea.
Gylfi Þór Sigurðson hefur spilað frábærlega með Swansea. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í fótbolta, er sagður á radar þýsku liðanna Dortmund og Herthu Berlín í enska götublaðinu The Sun í morgun.

Blaðið fullyrðir að Dortmund, sem er í öðru sæti þýsku 1. deildarinnar, sé búið að spyrjast fyrir um Gylfa hjá forráðamönnum Swansea og sé tilbúið að greiða fyrir hann tíu milljónir punda eða tæpa tvo milljarða króna.

Því er einnig haldið fram að Hertha Berlín hafi áhuga á Gylfa Þór en hann spilaði eina og hálfa leiktíð sem ungur maður hjá Hoffenheim og skoraði níu mörk í 36 leikjum í þýsku 1. deildinni.

Fréttin um Gylfa í The Sun í morgun.
Gylfi Þór hefur farið á kostum með Swansea eftir áramót í ensku úrvalsdeildinni en hann er búinn að skora níu af ellefu mörkum sínum á nýju ári og er ein helsta ástæða þess að Swansea mun halda sæti sínu í deildinni þetta tímabilið.

Dortmund verður í Meistaradeildinni á næstu leiktíð en liðið er með 20 stiga forskot á liðið í þriðja sæti, Bayer Leverkusen, þegar þrjár umferðir eru eftir í Þýskalandi.

Dortmund er lang næstbesta liðið í þýsku 1. deildinni og það eina sem veitir Bayern München samkeppni. Lærisveinar Thomasar Tuchel, sem féllu úr leik í Evrópudeildinni á ævintýralegan hátt gegn Liverpool, eru fimm stigum á eftir Bayern þegar níu stig eru eftir í pottinum.


Tengdar fréttir

Gylfi sá um Chelsea

Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Swansea sigurinn, 1-0, á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×