Enski boltinn

Gylfadagar í Swansea | Fyrst bestur í febrúar og núna bestur í mars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Mynd/gwplayerofthemonth.com
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið valinn besti leikmaður Swansea City í marsmánuði en hann hlýtur þessi verðlaun nú annan mánuðinn í röð.

Gylfi skoraði 2 mörk í 4 leikjum í mars og hjálpaði Swansea að ná í 9 stig af 12 mögulegum í þeim. Gylfi var maðurinn á bak við sigurmörkin í öllum þremur leikjunum, skoraði eitt og bjó til hin tvö.

Hann lagði upp sigurmörk á móti Arsenal og Aston Villa en enska úrvalsdeildin viðurkenndi gullsendingar hans þó ekki sem stoðsendingar af því að þær höfðu örlita viðkomu í andstæðingi.

Gylfi skoraði eina markið þegar Swansea City vann 1-0 sigur á Norwich en mark hans á móti Bournemouth kom ekki í veg fyrir 3-2 tap velska liðsins.

Swansea-liðið skoraði sex mörk í mars og átti Gylfi þátt í fjórum þeirra með beinum hætti eða 67 prósent marka liðsins í mánuðinum.

Gylfi Þór er langt kominn með að tryggja sér verðlaunin líka fyrir apríl þrátt fyrir að mánuðurinn sé bara hálfnaður enda farið á kostum í nær öllum leikjum eftir áramót.

Gylfi Þór Sigurðsson er þó ekki búinn að ná André Ayew sem var þrisvar sinnum valinn leikmaður mánaðarins hjá Swansea fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×