Fótbolti

Fullyrt að Zlatan sé með risatilboð frá Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Franskir fjölmiðlar fullyrða að Chelsea ætli sér að bjóða Svíanum Zlatan Ibrahimovic, leikmann PSG, háar fjáræðir fyrir að semja við Lundúnarfélagið í sumar.

Zlatan verður samningslaus í sumar og hafa fjölmiðlar keppst við að orða hann við hin ýmsu félög auk þess að fullyrða að hann verði um kyrrt í París.

Sjá einnig: Zlatan: Verð áfram ef þeir skipta Effelturninum út fyrir styttu af mér

Footmercato í Frakklandi fullyrðir nú að Mino Raiola, umboðsmaður Zlatans, sé með fjölda tilboða á sínu borði, líka frá liðum í Kína og Bandaríkjunum. Zlatan mun hins vegar kjósa sjálfur að vera um kyrrt í Evrópu um sinn.

Bayern München er eitt þeirra félaga sem er sagt vilja fá leikmanninn en Carlo Ancelotti, sem tekur við stjórastarfinu í Bayern í sumar, er sagður afar áhugasamur um að starfa með Zlatan.

Sjá einnig: Zlatan afgreiddi Chelsea

En samkvæmt fréttinni stendur valið helst á milli Chelsea, Manchester United og AC Milan. Síðastnefnda félagið stendur einna verst að vígi í þeirri baráttu vegna slæmrar stöðu sinnar í ítölsku deildinni auk þess sem það getur ekki veitt ensku liðunum samkeppni þegar kemur að launum.

Chelsea er sagt reiðubúið að bjóða Zlatan tveggja ára samning og greiða honum 1,7 milljarða í árslaun. Enn fremur er fullyrt í fréttinni að Zlatan sé sjálfur hvað spenntastur fyrir því að flytja til Lundúna en að ráðning Jose Mourinho til United gæti breytt því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×