Fótbolti

Kolbeinn veikur og varamaður hans blómstraði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson lék ekki með Nantes í kvöld.
Kolbeinn Sigþórsson lék ekki með Nantes í kvöld. Vísir/AFP
Íslenski landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson gat ekki spilað með Nantes í kvöld þegar liðið vann 3-1 heimasigur á Gazélec Ajaccio í frönsku deildinni.

Kolbeinn gat ekki spilað leikinn vegna veikinda en hann var búinn skora tvö mörk í síðustu fjórum leikjum sínum með liðinu.  

Emiliano Sala kom inn í byrjunarlið Nantes fyrir Kolbein og það er óhætta að segja að þessi 25 ára Argentínumaður hafi nýtt tækifærið sitt vel.

Emiliano Sala átti þátt í öllum þremur mörkum liðsins, skoraði eitt sjálfur og lagði upp hin tvö. Það gæti því verið erfitt fyrir Kolbein að komast aftur í byrjunarliðið þegar hann nær sér af veikindunum.

Amos Youga fékk rautt spjald á 51. mínútu og lék Nantes því manni fleiri síðustu 40 mínútur leiksins. Youga fékk rautt í stöðunni 2-1.

Emiliano Sala skoraði fyrsta mark Nantes á 14. mínútu leiksins og lagði síðan mark upp fyrir Bandaríkjamanninn Alejandro Bedoya tíu mínútum síðar.

Emiliano Sala lagði einnig um þriðja mark Nantes sem Brasilíumaðurinn Adryan skoraði á 58. mínútu leiksins.

Nantes er ekki búið að tapa í tíu deildarleikjum í röð en þetta var annar sigur liðsins í röð og sá þriðji í þessum tíu taplausu leikjum.

Stigin þrjú skila liðinu upp í sjötta sæti deildarinnar en Nantes er nú einu stigi frá fimmta sætinu og tveimur stigum frá fjórða sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×