Lífið

Rómantík á Tinder: „Ef þetta gengur ekki þá er hægt að prófa einhvern annan“

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Flott pör.
Flott pör.
Snjallsímaforritið Tinder kannast sjálfsagt flestir við en frá því haustið 2012 hefur forritið hægt og bítandi sótt í sig veðrið. Tinder, sem er sterfnumótaapp gerir fólki kleift að kynnast á auðveldan hátt en það er tengt við Facebook-síður fólks, svo ef einhver sýnir þér áhuga á Tinder, getur þú séð hverjir ykkar sameiginlegu vinir eru.

Þó nokkur íslensk kærustupör hafa vafalaust myndast eftir að hafa kynnst í gegn um forritið, hafið þar spjall og skellt sér á deit.

Fréttablaðið heyrði í þremur Tinder-pörum og fékk að heyra þeirra sögur.

Eyþór Árni og Svava Rut ástfangin
„Þetta byrjaði allt með því að ég lækaði mynd af honum og hann mynd af mér. Ég var fljót að fara tala við hann og sendi strax hæ. Það leið nánast vika þangað til ég fékk svar. Eftir það fórum við að tala saman í gegn um Tinder og aðra miðla eins og Facebook og Instagram. Það leið svo alls ekki á löngu þar til við ákváðum að hittast. Strax á eftir þá urðum við par. Í dag erum við gift og búum saman með fjögur börn, yngsta krílið eigum við saman, hana Emblu Máneyju en hún fæddist 27. október 2015,“ segir Svava hamingjusöm með kynni sín við Eyþór Árna á Tinder.

„það skiptir máli að vera ekki feiminn við að gefa fólki séns. Því að þú verður ástfanginn af persónuleikanum. Útlitið er ekki allt og ef þú verður ástfanginn þá er ekkert annað fallegra en makinn þinn. Farðu líka beint í málið, ef ég hefði ekki sagt þetta eina hæ hefðum við jafnvel ekki eignast þetta fallega líf saman. Þú hefur engu að tapa, ef þetta gengur ekki þá er hægt að prófa einhvern annan,“ segir Svava.

„Mitt ráð til fólks er bara að hafa góða mynd af sér, ég sjálf var bara með sætustu myndina af mér. Persónulega finnst mér ekki vera málið að hafa mynd af börnunum sínum á Tinder, það er alveg á hreinu að þú ert að fara á stefnumót, ekki börnin þín.“

Kristinn Jón og Kristín Bára
Fékk skilaboð um Facebook-add

„Þetta byrjaði allt saman með matsji á köldu haustkvöldi í ágústmánuði. En hvað gerist svo eftir matsjið? Persónulega var ég orðinn þreyttur á því að eiga frumkvæðið í spjalli,” segir Kristinn.

,,Það sem gerðist hjá okkur í fyrsta skrefi var því nákvæmlega ekkert, þar sem það fóru aldrei nein samskipti okkar á milli á Tinder-vellinum. Það var ekki fyrr en Kristín sá snapp af mér hjá sameiginlegum vini okkar þar sem ég var í dansgír á menningarnótt að hún bað þennan sameiginlega vin um að koma því vinsamlegast til skila að ég ætti að adda henni á Facebook. Mér líkaði afskaplega vel við þessa eftirfylgni og hikaði alls ekki við það þar sem ég man nú vel eftir dömunni úr Tinder-hafinu. Svo kom eitt lítið hæ sem leiddi út í samræður um tásur, önnur persónuleg mál og endaði með boði á deit. Við hittumst reyndar daginn fyrir fyrsta deitið fyrir ,,tilviljun“ í jóga-dansi í Sólum. Við fyrsta augnagot, bros, snertingu og knús vissi ég að það væri mikið spunnið í hana Kristínu og það hefur nú heldur betur sýnt sig yfir síðustu mánuði,“ segir Kristinn alsæll með nýju ástina.

„Eina ráðið sem okkur dettur í hug er í rauninni að taka af skarið og hafa frumkvæði ef áhugi er virkilega fyrir hendi. Það er eitthvað sem stelpur mættu gera meira af. Við eigum að velja sjálf það sem við viljum og líkar vel við, en ekki bara að þiggja það sem kemur upp í hendurnar á okkur,“ segir Kristinn og bætir við:

„Það er síðan lykilatriði að hafa eina útivistarmynd á móti vínglasinu.“

Alda Dís og Ásgeir Vísir
„Ég byrjaði á Tinder á laugardagskvöldi, eftir að vinkonur mínar sögðu mér frá appinu. Á Íslandi er í alvörunni engin stefnumótamenning svo þetta er nánast eini valkosturinn ef þig langar til að finna þér maka. Mér fannst þetta frekar fyndið en ákvað þó að slá til. Við Ásgeir hittumst mjög fljótlega eftir að við ákváðum að hittast í kaffi. Síðan þá höfum við verið saman. Ég var mjög ánægð eftir að hafa hitt hann en ég var viss um að honum hefði fundist deitið ganga ömurlega,“ segir Alda Dís.

„Ef ég ætti að gefa fólki ráð þá væri það líklegast að fara alls ekki strax heim með einhverjum heldur byrja á því að spjalla saman og kynnast. Eftir það er kannski möguleiki á að hittast yfir kaffibolla. Einnig ráðlegg ég fólki að setja myndir af sér sem eru sem líkastar því sjálfu, fólk kann að meta það. Það er gaman að skoða myndir af fólki sem er natúral.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×