Bandaríkjamaðurinn Roy Jones Jr., fyrrum heimsmeistari í hnefaleikjum, vill verða Rússi.
Það eru tvö ár síðan Jones viðraði þessar hugmyndir sínar en hann fékk tækifæri á dögunum til þess að fara með þetta alla leið.
Þá hitti hann forseta Rússlands, Vladimir Pútin, og drukku þeir te saman á fundi. Þá bað Jones forsetann um ríkisborgararétt.
Pútin sagði að það væri lítið mál að redda því ef Jones ætlaði sér að eyða drjúgum tíma í landinu.
Jones mun taka þátt í mikilli sýningu í Rússlandi um næstu helgi en hann er farinn að rappa eftir að hann hætti í boxinu.
