Enski boltinn

Þorvaldur: Ekki möguleiki að Liverpool nái Meistaradeildarsæti

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Ég var ekki hrifinn af spilamennsku þeirra en ég held að þetta snúist bara um það að ná í úrslit í fyrstu leikjunum,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, sérfræðingur hjá Hjörvari Hafliðasyni í Messuni í gær, um spilamennsku Liverpool í 1-0 sigrinum á Bournemouth.

„Ef hann nær úrslitum fær hann tíma til þess að móta liðið. Það eru margir leikmenn komnir og farnir en hann verður að ná úrslitum til þess að fá meiri tíma.“

Þorvaldur taldi að það væri best fyrir Liverpool að losa sig við Mario Balotelli sem var í stúkunni í gær.

„Ég held að því fyrr sem Liverpool kemur honum í burtu, því betra. Það getur vel verið að hann sé góður í fótbolta, kannski sá besti í heimi en Liverpool hefur engan tíma til þess að sjá um allt vesenið sem fylgir honum.“

Auðunn Blöndal, annar gesta Hjörvars í gær, sagðist hafa trú á því að Liverpool gæti blandað sér í baráttuna sæti í Meistaradeildinni.

„Þetta er fín byrjun, þeir eru með sex stig og ekki búnir að fá á sig mark. Ég er viss um að Benteke muni skora nokkur mörk í vetur, svo kemur Sturridge inn,“ sagði Auðunn en Þorvaldur var ekki sammála.

„Ég held að það sé ekki möguleiki eins og staðan er í dag. Til þess þarf mjög margt að ganga upp hjá þeim. Miðjan þeirra er ekki nógu sterk og varnarleikurinn er ekki góður þótt þeir hafi styrkt sóknarleikinn í sumar. Á meðan Milner spilar á miðjunni eru þeir ekki að fara í efstu fjögur sætin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×