Þrír menn voru þá um borð í sanddæluskipinu Perlu en hafnsögubáturinn Magni var að draga það frá slippnum og koma því að bryggju. Mennirnir voru hins vegar allir komnir í land þegar efsti hluti stýrihússins var að fara á kaf en síðasti maður frá borði var Ágúst Ágústsson vélstjóri. Í samtali í fréttum Stöðvar 2 sagði Ágúst að þetta hefði gerst nokkuð hratt í restina og var auðheyrt að honum var brugðið.
„Auðvitað verður manni brugðið við svona lagað. Maður er ekkert vanur að lenda í svona ósköpum,“ sagði Ágúst. „Við vorum í hættu, - við rétt komumst í land í lokin, - við tveir sko; einn frá slökkviliðinu og ég.“

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, kvaðst eftir samtal við fulltrúa Björgunar vera bjartsýnn á að það myndi ekki taka marga daga að ná skipinu upp. Fyrirtækið myndi skila áætlun á morgun um hvernig staðið yrði að björgun skipsins.