Enski boltinn

Sigurmark Benteke var ólöglegt og átti aldrei að standa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Benteke skorar hér markið sitt.
Christian Benteke skorar hér markið sitt. Vísir/Getty
Christian Benteke tryggði Liverpool 1-0 sigur á Bournemouth í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á mánudagskvöldið en markið átti aldrei að standa.

Enska úrvalsdeildin gaf í dag frá sér yfirlýsingu um að það hafi verið mistök að dæma sigurmark Benteke gott og gilt.

Christian Benteke var ekki rangstæður en það var hinsvegar liðsfélagi hans Philippe Coutinho sem hafði augljóslega áhrif á það sem gerðist þegar Jordan Henderson gaf boltann fyrir.

Coutinho kom ekki við boltann en truflaði markmann Bournemouth-liðsins með því að teygja sig í boltann. Það er hægt að sjá markið hér fyrir neðan.

Rangstöðureglunni var aðeins breytt í sumar hvað það varðar að leggja meiri áherslu á að leikmenn geta verið rangstæðir og haft áhrif á gang leiksins þrátt fyrir að þeir komi ekki við boltann.

Eddie Howe, knattspyrnustjóri Bournemouth, hafði samband við dómarasamtökin í Englandi eftir tapið í Liverpool og óskaði eftir skýringu á reglunni um hvenær leikmaður hefur áhrif á leikinn.

Enska úrvalsdeildin hefur nú brugðist við því með því að senda öllum félögum útskýringu á því hvenær leikmenn sem snerta ekki boltann eru rangstæður og hvenær ekki.

Þar kemur meðal annars fram að leikmaður sem snertir ekki boltann er alltaf rangstæður ef hann reynir augljóslega að komast í boltann sem er nálægt honum og truflar með því mótherja eða þá ef hann truflar aðgengi mótherja að knettinum.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×