Enski boltinn

Houllier: Gerrard verður frábær knattspyrnustjóri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Vísir/Getty
Steven Gerrard er að kveðja Liverpool sem leikmaður í vor og mun á næsta tímabili spila með Los Angeles Galaxy í bandarísku deildinni.

Það eru þó einhverjir sem sjá þennan 34 ára leikmann koma aftur til Englands og þá sem knattspyrnustjóri.

Einn af þeim er Gerard Houllier, fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool. Houllier var knattspyrnustjóri Liverpool á árunum 1998 til 2004 og gaf Gerrard ekki bara fyrsta tækifærið í aðalliði Liverpool heldur gerði hann einnig að fyrirliða liðsins 2003.

„Gerrard verður frábær knattspyrnustjóri af því að hann setur liðið alltaf í fyrsta sætið," sagði Gerard Houllier í viðtali við BBC.

„Hann hefur allt sem þarf til þess að hugsa vel um liðið sitt, félagið og uppbyggingu annarra," sagði Houllier.

„Gerrard er fæddur leiðtogi, mjög áhrifamikill og andlega hvetjandi. Hann er maður sem menn vilja fylgja," sagði Houllier.

„Hann mun vinna sér inn sinn stað í hjarta stuðningsmanna Galaxy alveg eins og Beckham. MLS-deildin er heppin að fá hann og hann mun ná góðum árangri þar, Ég veit líka fyrir víst að hann mun snúa aftur til Liverpool. Kannski ekki á allra næstu árum en einhvern tímann seinna," sagði Houllier.

Gerard Houllier og Steven Gerrard unnu sex titla saman þar á meðal bikarþrennuna 2000-01 þegar Liverpool vann enska bikarinn, enska deildarbikarinn og UEFA-bikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×