Innlent

Þrjá milljónir til hjálparstarfs

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Heimarvistir í Pókot-héraði í Keníu veita stúlkunum þar öruggt skjól.
Mynd/skúli svavarsson
Heimarvistir í Pókot-héraði í Keníu veita stúlkunum þar öruggt skjól. Mynd/skúli svavarsson MYND/SKÚLI SVAVARSSON
Samband íslenskra kristniboðsfélaga, SÍK, fékk í fyrra nær þrjár milljónir króna fyrir notuð frímerki, umslög og gamla mynt í árvissri söfnun sinni. Söfnunarfénu er varið til styrktar þróunarverkefnum á sviði skólastarfs í Eþíópíu og Keníu, meðal annars 120 nemenda heimavist við framhaldsskóla fyrir stúlkur í Pókot-héraði í Keníu.

Jarle Reiersen, sjálfboðaliði hjá SÍK, segir verðmæti í notuðum frímerkjum og umslögum og að Kristniboðssambandið sé þakklátt gefendum. „Þeir setja umslögin í söfnunarkassa á öllum pósthúsum og koma einnig með þau á skrifstofu SÍK.“

Í síðustu viku seldi hann umslag á netinu fyrir um 17 þúsund krónur. „Ég veit ekki hvort þeir sem setja umslög og frímerki í söfnunarkassana vita um verðmæti þess sem þeir eru að gefa en það verðmætasta sem hefur verið gefið var gamalt póstkort sem sent var frá Ísrael til Íslands skömmu eftir stofnun Ísraelsríkis. Fyrir það fengust 25 þúsund krónur fyrir nokkrum árum,“ greinir Jarle frá.

Heimavistin sem reist hefur verið í Pókot-héraði í Keníu fyrir söfnunarfé veitir stúlkunum þar öruggt skjól auk tækifæris til menntunar. Kristján Þór Sverrisson, starfsmaður Kristniboðssambandsins, segir hefð fyrir því í héraðinu að stúlkur sem nálgast giftingaraldur, það er þegar þær eru 12 til 15 ára, séu umskornar. „Með aukinni menntun og vitund eru fleiri stúlkur sem hafna þessari limlestingu og neyðast oft til að flýja heimkynni sín.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×