Innlent

Lambatittlingar, hálsar og bein fluttir til Asíu.

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Áður urðað Á þorranum eru nýttir líkamspartar skepnunnar sem alla jafnan eru ekki nýttir. SS nýtir enn fleiri parta skepnunnar og flytur til Asíu. Fréttablaðið/Pjetur
Áður urðað Á þorranum eru nýttir líkamspartar skepnunnar sem alla jafnan eru ekki nýttir. SS nýtir enn fleiri parta skepnunnar og flytur til Asíu. Fréttablaðið/Pjetur
„Það mætti segja að við séum að líta til fortíðar, en í gamla daga var allt nýtt af skepnunni,“ segir Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri SS á Hvolsvelli, um nýjungar í útflutningi fyrirtækisins á Asíumarkað.

Á síðasta ári voru að hans sögn flutt þangað 300 tonn af heldur óhefðbundnum kjötafurðum á borð við lambatittlinga, lungu, hálsa, fitu og bein.

Ef til vill eru þessar nýjungar ekki sérlega óhefðbundnar þegar litið er til matarúrvalsins sem er á þorranum á Íslandi þegar snæddir eru hrútspungar, tungur, tær og hausar en engu að síður er SS að nýta parta skepnunnar sem áður voru urðaðir.

„Áður vorum við að urða þetta svo nýtingin er mjög umhverfisvæn,“ segir Guðmundur frá. „Við erum alltaf að þróa markaði og koma með nýjungar og það á ekki síður við um nýtinguna.“

Guðmundur segist sjálfur ekki hafa bragðað á nýjungunum en hefur haft fregnir af matseldinni. „Mér skilst að lambatittlingarnir séu djúpsteiktir, annars veit ég ekki mikið um það hvernig þeir þykja best matreiddir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×