Innlent

Kostar 33 milljarða að ná meðaltalinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Í yfirlýsingunni er stefnt að því að heilbrigðiskerfið búi við sambærilegan ramma hvað varðar fjármuni og önnur Norðurlönd.
Í yfirlýsingunni er stefnt að því að heilbrigðiskerfið búi við sambærilegan ramma hvað varðar fjármuni og önnur Norðurlönd. Fréttablaðið/Viktoría
Heildarframlög ríkissjóðs til heilbrigðismála þurfa að hækka um tugi milljarða til þess að vera í samræmi við framlög á öðrum Norðurlöndum.

Í yfirlýsingu sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Illugi Gunnarsson, starfandi fjármála- og efnahagsráðherra, og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynntu í gær ásamt Þorbirni Jónssyni, formanni Læknafélags Íslands, og Kristínu Huld Haraldsdóttur, varaformanni skurðlæknafélagsins, eru tilgreind nokkur markmið sem aðilar vilja vinna að.

Á meðal þessara atriða er að heilbrigðiskerfið búi við sambærilegan ramma hvað varðar fjármuni og fjölda starfsmanna og önnur Norðurlönd að teknu tilliti til sérstöðu Íslands hvað varðar mannfjölda og staðhætti.

Í riti Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, Health at a Glance: Europe 2014, eru framlög ríkja í Evrópu til heilbrigðismála borin saman. Þar sést að af Norðurlöndunum ver Noregur mest á hvern einstakling til heilbrigðismála í evrum, en Íslendingar minnst.

Norðmenn verja 4.610 evrum á hvern einstakling eða tæplega 710 þúsund íslenskum krónum miðað við gengi evrunnar í dag, Danir verja því sem samsvarar 3.528 evrum eða rúmum 543 þúsund íslenskum krónum á hvern einstakling.

Íslendingar verja hins vegar því sem samsvarar 2.655 evrum eða 409 þúsund krónum. Að meðaltali verja Norðurlandaþjóðirnar 3.310 evrum á ári á hvern einstakling, eða sem samsvarar 510 þúsund krónum. Íslendingar þurfa því að auka framlög á hvern einstakling um 101 þúsund krónur til að nálgast meðaltalið.

Þetta þýðir að ef íslensk yfirvöld hyggjast verja jafn miklum peningum á einstakling vegna heilbrigðismála þyrftu framlög Íslands að hækka um 33 milljarða til að jafnast á við meðaltalið, 44 milljörðum til að ná Danmörku og 98 milljörðum til að ná Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×