Enski boltinn

Januzaj sá um Aston Villa | Sjáðu markið

Man. Utd hefur leiktíðina í enska boltanum vel. Liðið er búið að vinna fyrstu tvo leiki sína. Í kvöld náði United að vinna útisigur, 0-1, á Aston Villa. Það var Adnan Januzaj sem skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik.

Hann fékk að leika í holunni fyrir aftan Rooney í kvöld. Það er hans uppáhaldsstaða og hann nýtti tækifærið ágætlega þann klukkutíma sem hann spilaði.

Það þarf ekki að koma á óvart að United hafi unnið á Villa Park enda ekki tapað þar í heil 20 ár.

Leikur Man. Utd var fyrir utan það ekkert rosalega heillandi. Varnarleikurinn ágætur en sóknarleikurinn óttalega bitlaus gegn slöku liði Villa. Miðað við gæðin sem United hefur vilja stuðningsmenn félagsins meira en liðið sýndi í kvöld.

Byrjunin á tímabilinu þó góð. Sex stig, tvö skoruð mörk og United hefur haldið markinu hreinu í báðum leikjum..

Að ofan má sjá markið í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×