Fótbolti

Spænsku stelpurnar skutu þær þýsku niður á jörðina upp á Skaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lucía García Córdoba.
Lucía García Córdoba. Mynd/Sefutboltv
Íslenska sautján ára landsliðið í fótbolta er greinilega í mjög sterkum riðli á úrslitakeppni Evrópumótsins sem fer fram hér á landi þessa dagana ef marka má 4-0 stórsigur spænska liðsins á Þýskalandi í fyrri leik dagsins í riðli Íslands.

Lucía García Córdoba, leikmaður Oviedo, skoraði þrennu í fyrri hálfleiknum og fyrirliðinn Aitana Bonmati innsiglaði sigurinn í uppbótartíma leiksins.

Þetta stórtap þýska liðsins vekur mikla athygli enda bjuggust nú flestir við því að þær þýsku gætu farið alla leið á mótinu. Spænska liðið er greinilega mjög gott og fann heldur betur taktinn upp á Skaga í dag.  

Lucía García er aðeins sextán ára gömul og hefur nú skorað fjögur mörk í fyrstu tveimur leikjum spænska liðsins á mótinu. Lokaleikur hennar í riðlakeppninni er síðan á móti Íslandi.

Ísland tapaði 5-0 á móti þessu þýska liði í fyrsta leik liðanna á mótinu en Spánn gerði þá 1-1 jafntefli við England. Ísland og England mætast á Akranesvelli klukkan 19.00 í kvöld.

Alisha Lehmann tryggði Sviss 1-0 sigur á Írlandi í leiknum í hinum riðlinum sem fór fram á Laugardalsvellinum á sama tíma. Sviss hefur fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki sína en þær írsku hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×