Sport

Eygló Ósk: Ætla að leyfa þessu að koma mér á óvart aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eygló (lengst til hægri) átti frábært ár í lauginni.
Eygló (lengst til hægri) átti frábært ár í lauginni. vísir/afp
Eins og fram hefur komið var sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir valinn Íþróttamaður ársins 2015. Það eru Samtök íþróttafréttamanna sem standa að kjörinu en niðurstöður þess voru kynntar við hátíðlega athöfn í Silfurbergi í Hörpu í kvöld.

Eygló gat ekki verið viðstödd athöfnina þar sem hún er stödd við æfingar erlendis en Jóhanna Gerða, systir hennar, tók við verðlaununum fyrir hennar hönd.

Sjá einnig: Íþróttamaður ársins 2015 | Myndir

Að verðlaunaafhendingunni lokinni var sýnt viðtal sem Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður hjá RÚV, tók við Eygló á heimili hennar fyrir skemmstu.

„Ég á ekki orð og það er ekkert smá mikill heiður að vera Íþróttamaður ársins,“ sagði Eygló sem er fimmta konan sem hlýtur þetta sæmdarheiti.

Eygló náði frábærum árangri á árinu sem nú er senn á enda en þar bar hæst tvenn bronsverðlaun sem hún vann til á EM í 25 metra laug í Ísrael fyrr í þessum mánuði. Hún segist ekki hafa búist við að ná svona góðum árangri á mótinu.

„Eiginlega ekki, hausinn á mér var í rugli fyrir þetta mót. Við mættum þarna og mér fannst ekki eins og við værum að fara að keppa. Við vorum í keppnisumhverfi en ég var ekki búin að koma því inn í hausinn á mér að ég væri að fara að keppa,“ sagði Eygló.

„Mér gekk ekkert sérstaklega vel fyrsta daginn í 100 metra baksundinu. Ég bætti mig en þetta var ekki það sem ég ætlaði mér að gera. Svo náði ég að laga hausinn minn á öðrum degi. Ég ætlaði bara að hafa gaman að þessu og hætta að stressa mig.“

Sjá einnig: Íþróttamaður ársins 2015 | Heildarniðurstöður kjörsins

Eygló horfir björtum augum til framtíðar en framundan er Ólympíuár. Eygló, sem er aðeins tvítug, verður á meðal keppenda í Ríó en hún var einnig með á ÓL í London 2012.

„Ég þarf fyrst og fremst að einbeita mér að æfingum, æfa eins og brjálæðingur og bæta allt sem ég þarf að bæta. En ég ætla ekki að stressa mig of mikið og leyfa þessu að koma mér á óvart aftur,“ sagði Eygló Ósk Gústafsdóttir, Íþróttamaður ársins 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×