Enski boltinn

Henderson: Coutinho gerir þetta oft á æfingum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool vann mikilvægan sigur á Southampton í ensku úrvalsdeildinni í dag.



Með sigrinum færðist Liverpool nær Meistaradeildarsæti en liðið er í 6. sæti, aðeins tveimur stigum á eftir Manchester United sem situr í 4. sætinu sem er það síðasta sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Jordan Henderson bar fyrirliðaband Liverpool í dag og hann var að vonum ánægður með stigin þrjú.

„Þetta var stór sigur. Við vissum að það yrði erfitt að koma hingað og spila hér því Southampton er með gott lið,“ sagði Henderson en Liverpool hefur nú haldið hreinu í fimm útileikjum í röð sem hefur ekki gerst síðan 1985.

„Við spiluðum frábærlega í dag, allt frá fremsta til aftasta manns. Þetta var fullkomin frammistaða,“ bætti Henderson við og fyrirliðinn hrósaði Philippe Coutinho en Brasilíumaðurinn skoraði gull af marki á 3. mínútu og kom Liverpool í 0-1. Markið má sjá í spilaranum hér að ofan.

„Markið hjá Coutinho var magnað en hann gerir þetta oft á æfingum. Hann er frábær og markið hans gaf okkur byr undir báða vængi.

„Þetta var góð helgi fyrir okkur, en það mikilvægasta er að við unnum og höldum áfram að vinna,“ sagði Henderson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×