Enski boltinn

Gummi Ben: Þetta er orðið gott í bili

Gummi Ben og Hjörvar Hafliða.
Gummi Ben og Hjörvar Hafliða. vísir/pjetur
„Þetta er orðið gott í bili. Við erum búnir að rúlla þessum þætti í fimm góð ár," segir Guðmundur Benediktsson en hann verður ekki með Messuna á Stöð 2 Sport 2 í vetur eins og undanfarin ár.

„Ég hef líka gott af því að taka mér hvíld frá dagskrárgerð. Á móti kemur að ég mun lýsa enn meira en áður. Bæði í enska boltanum og Meistaradeildinni."

Í stað Messunnar mun koma uppgjörsþáttur á sunnudögum sem Hjörvar Hafliðason mun stýra.  

„Nú fær fólk öll mörkin um leið og flautað er af í síðasta leik um helgar," segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, íþróttastjóri 365.

Það kemur fleira til hjá Guðmundi. Fjölskyldubreytingar gera honum erfiðara um vik að stýra þættinum.

„Sonur minn er nýbúinn að semja við nýtt félag í Hollandi og fjölskyldan mín flytur út til þess að styðja við bakið á honum. Ég verð því talsvert á ferðinni milli Íslands og Hollands í vetur. Ég þarf mitt svigrúm og get því ekki skuldbundið mig við þáttinn í 38 vikur," segir Guðmundur og bætir við.

„Svo er alltaf gott að hleypa öðrum að. Ég efast ekkert um að Hjörvar muni leysa sitt verkefni með miklum sóma."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×