Innlent

Miklar truflanir á innanlandsflugi vegna ótíðar

Heimir Már Pétursson skrifar
Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands 20 % fleiri flugferðum hafa verið aflýst í fyrra en árið á undan vegna veðurs. Árið í ár byrjar illa.
Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands 20 % fleiri flugferðum hafa verið aflýst í fyrra en árið á undan vegna veðurs. Árið í ár byrjar illa.
Árið í fyrra var töluvert mikið verra veðurfarslega séð fyrir innanlandsflugið en árið þar á undan. Framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands segir janúarmánuð hafa verið svipaðan hvað þetta varðar og janúar í fyrra en febrúar byrji illa.

Veðrið hafði áhrif á ferðaáætlanir margra sem hugðust fljúga milli landshluta í fyrra og segir Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands að árið í fyrra hafa verið erfiðara veðurfarslega en fyrri ár.

„Já, það er óhætt að segja það. Veðrið lék okkur svolítið grátt í fyrra. Þetta voru um 20 prósent fleiri niðurfellingar á flugi sem við vorum með á síðasta ári í samanburði við árið á undan,“ segir Árni. Og árið í ár byrji ekki vel.

„Nei. Janúarmánuður var reyndar svolítið svipaður og hann var í fyrra. En febrúar hefur verið mun erfiðari við okkur en hann var á sama tíma í fyrra það sem af er honum,“ segir Árni.

Til að mynda hefur allt innanlandsflug félagsins legið niðri í morgun vegna veðurs. Árni segir niðurfellingu og tafir á flugi auðvitað hafa áhrif á ferðaáætlanir fólks, en að jafnaði fljúga tæplega eitt þúsund manns á dag með Flugfélagi Íslands innanlands. Sumir hætti við vegna breytinga á fluginu og fari kannski landleiðina í staðinn ef hún sé þá fær.

En flugfélagið þarf einnig að borga starfsfólki laun þótt ekki sé flogið.

„Þannig að við höfum metið það þannig svona gróft séð, ef við höfum dag sem ekkert er flogið hjá okkur, sem fer líka eftir stöðu bókanna; geti hver dagur þýtt um tíu milljóna tekjutap,“ segir Árni.

Veður í kring um einstaka flugvelli sem og veður í háloftunum eða á landinu öllu geti sett strik í reikninginn.

Dagurinn í dag, hvernig lítur hann út?

„Hann byrjar ekki vel en við höfum samt einhverjar vonir um að við getum flogið seinnipartinn,“ sagði Árni Gunnarsson upp úr klukkan tíu í morgun og bendir farþegum á að fylgjast vel með á heimasíðu Flugfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×