Innlent

Hjón dæmd fyrir að fjarlægja innréttingar af heimili sem þau voru að missa

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn lýsti því fyrir dómi að Íslandsbanki hafi viljað breyta láni sem hvíldi á húsinu og það hafi stefnt í að hann og eiginkona hans myndu missa það. Myndin tengist ekki fréttinni.
Maðurinn lýsti því fyrir dómi að Íslandsbanki hafi viljað breyta láni sem hvíldi á húsinu og það hafi stefnt í að hann og eiginkona hans myndu missa það. Myndin tengist ekki fréttinni. Vísir/Getty
Hjón í Kópavogi voru nýverið dæmd til fangelsisvistar fyrir skilasvik í Héraðsdómi Reykjaness. Hjónin voru ákærð fyrir skilasvik og peningaþvætti með því að hafa á tímabilinu 30. apríl til 14. febrúar árið 2011 í auðgunarskyni fjarlægt og látið fjarlægja og flutt á brott innanhússmuni úr fasteign sinni. Var hjónunum meðal annars gefið að sök að hafa selt hluta þessara muna og fyrir að hafa komið þeim fyrir inni á heimili dóttur mannsins.

Á meðal þess sem þau fjarlægðu af heimilinu, samkvæmt ákæru, var innrétting, örbylgjuofn, blöndunartæki, vínkælir, borðplata, uppþvottavél, vaskur, salerni og salernisseta, handklæðaofn, rúlluhaldari, fataherbergisskápur, loftlýsing, instabus-stjórnkerfi, stigi, gler á svalahandrið, þjófvarnakerfi, hátalarar og magnarar. Var andvirði allra þeirra muna sem hjónin fjarlægðu af heimilinu metið á 13,8 milljónir króna.

Maðurinn lýsti því fyrir dómi að Íslandsbanki hafi viljað breyta láni sem hvíldi á húsinu og það hafi stefnt í að hann og eiginkona hans myndu missa það. Maðurinn sagðist alfarið hafa séð um fjármál þeirra og hann alfarið einn ákveðið hvaða hlutir voru teknir úr húsinu og að kona hans hefði ekkert haft með það að gera.

Svo fór að maðurinn var dæmdur til fimmtán mánaða fangelsisvistar en dómurinn ákvað að fresta skuli fullnustu tólf mánaða af refsingunni haldi hann skilorði í tvö ár. Konan var dæmd til tólf maána fangelsisvistar en dómurinn ákvað að refsingin skyldi niður falla haldi hún skilorði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×