Innlent

„Hröðustu bætur sem um getur í áratugi“ til elli- og örorkulífeyrisþega

Heimir Már Pétursson skrifar
Elli og örorkulífeyrisþegar eru að fá hröðustu kjarabót sem um getur í áratugi að mati forsætisráðherra. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar gagnrýnir að þessir hópar fái ekki launahækkun aftur í tímann eins og aðrir hópar í samfélaginu.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að greiðslur til eldri borgara og öryrkja hækki um tæplega tíu prósent. Helgi Hjörvar þingflokksformaður Samfylkingarinnar minnti á að í dag er alþjóðadagur fatlaðra og spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra út í þessi mál í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

„Það má segja að forsætisráðherra sé formaður kjararáðs aldraðra og öryrkja. Því það er ríkisstjórn og Alþingi sem ákveða kjör þessara hópa. Nú hafa alþingismenn og ráðherrar eins og og fjölmargir aðrir hópar í landinu fengið úrskurðaðar kjarabætur afturvirkt frá vorinu síðasta,“ sagði Helgi og spurði forsætisráðherra hvers vegna eldri borgarar og öryrkjar fengju ekki líka hækkanir frá síðasta vori.

Sigmundur Davíð tók undir með þingmanninum um að nausynlegt væri að tryggja þessum hópum sams konar kjarabætur og blessunarlega hefði tekist að tryggja öðrum hópum samfélagsins,  þar sem kaupmáttur hefði aukist hraðar en nokkru sinni áður í sögu lýðveldisins.

„Og það er unnið að því núna meðal annars með fjárlagafrumvarpinu sem enn er til vinnslu hér í þinginu að innleiða hröðustu kjarabót sem þessir hópar hafa séð um að minnsta kosti áratugaskeið á einu ári, gangi spár um verðbólgu eftir,“ sagði forsætisráðherra.

„Ég er að spyrja forsætisráðherra um yfirstandandi ár. Árið 2015. Eiga þessir fjölmennu hópar – og spurningin er ekki flókin hæstvirtur forsætisráðherra – að fá kauphækkanir á sama tíma og við, þú og ég,“ spurði Helgi.

„Virðulegur forseti, það er rétt sem háttvirtur þingmaður segir; þetta er ekki flókið. En hann gerir þó sitt besta til að flækja það. Það liggur fyrir að hækkanir, hvort sem er launa eða lífeyrisréttinda taka mið af því frá hvaða tíma hækkanirnar gilda. Það er að segja prósentuhækkunin tekur mið af því frá hvaða tíma hækkanirnar gilda. Séu hækkanir aftur í tímann leiðir það til þess að prósentuhækkunin verður lægri en ella. Komi hækkanirnar til í framtíðinni verður prósentuhækkunin hærri en ella,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×