Enski boltinn

Jóhann Berg lagði upp mark í tapi | Aron lék allan leikinn í sigri

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/getty
Jóhann Berg Guðmundsson lagði upp annað mark Charlton í 2-3 tapi gegn toppliði Brighton í ensku Championship-deildinni í dag en Charlton missti mann af velli á 58. mínútu og nýtti Brighton sér liðsmuninn til að stela sigrinum á lokakafla leiksins.

Jóhann og félagar fengu sannkallaða draumabyrjun þegar Ademola Lookman kom Charlton yfir á 2. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar bætti Reza Ghoochannejhad við marki eftir undirbúning Jóhanns.

James Wilson, lánsmaður frá Manchester United minnkaði muninn fyrir Brighton í upphafi seinni hálfleiks og stuttu síðar fékk Patrick Bauer í liði Charlton rautt spjald.

Jóhann fór af velli á 75. mínútu en stuttu síðar jafnaði gamli refurinn Bobby Zamora metin fyrir Brighton á 83. mínútu og tveimur mínútum síðar skoraði Tomer Hemed sigurmark Brighton.

Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff sóttu 3 stig til Bolton í dag en Aron og félagar þurftu að hafa töluvert fyrir stigunum gegn botnliði Bolton.

Cardiff komst yfir í tvígang með mörkum frá Tony Watt og Scott Malone en í bæði skiptin tókst leikmönnum Bolton svara með marki. Anthony Pilkington skoraði síðan sigurmark Cardiff tíu mínútum fyrir leikslok og tryggði Cardiff stigin þrjú en Cardiff skaust upp í 6. sætið með sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×