Báturinn Sæmundur fróði og Glaður sukku í höfnina en að sögn Gísla Gíslasonar, hafnarstjóra Faxaflóhafna, er verið að gera ráðstanfir til þess að ná bátunum upp og verði það reynt við fyrsta mögulega tækifæri.
Líkt og greint var frá í gær losnaði báturinn Stormur frá bryggju en Slökkviliðs- og björgunarsveitarmönnum tókst að festa bátinn.

Festingar á bryggjum í Suðurbugt og brimbrjót við Ægisgarð skemmdust svo og fingur á flotbryggjunni í Suðurbugt. Í Austurbugt urðu skemmdir á festingum á flotbryggju. Að sögn Gísla er um að ræða tjón upp á hundruð þúsunda, mögulega milljóna en hugað verður nánar að ástandi þar þegar vind hægir frekar.
Gísli segir að flestir hafi sinnt kallinu og hugað að bátum sínum áður en að óveðrið skall á en ljóst sé að einhverjir hafi ekki sinnt kallinu.
„Í þessari átt er þetta svæði algjör suðupottur. Miðað við áttina vissum við að það yrði mikil ókyrrð í Ægisgarði. Það voru margir smábátaeigendur sem fóru og sinntu kallinu. Sumir gerðu það hinsvegar ekki og tóku það sem við köllum sénsinn.“
Vindur verður áfram snarpur í dag og fram eftir kvöldi og vill Gísli koma þeim skilaboðum áleiðis til bátaeiganda um að halda vöku sinni og tryggja landfestar sem kostur er og færa báta sína eftir því sem efni standa til.
Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi sköpuðust afar erfiðar aðstæður við Ægisgarð í gærkvöldi.