Innlent

Aflétta hættustigi á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum

Atli Ísleifsson skrifar
Búið er að aflétta óvíssustigi vegna hugsanlegrar snjóflóðahættu á Austurlandi og Mið-Norðurlandi.
Búið er að aflétta óvíssustigi vegna hugsanlegrar snjóflóðahættu á Austurlandi og Mið-Norðurlandi. Vísir/Anton Brink
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur aflétt hættustigi vegna óveðurs á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Óvissustig er þá í gildi á öllu landinu og verður staðan endurmetin eftir hádegið.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að búið sé að aflétta óvíssustigi vegna hugsanlegrar snjóflóðahættu á Austurlandi og Mið-Norðurlandi.

„Enn er óvissustig í gildi fyrir sunnan- og norðanverða Vestfirði og mjög hvasst þar.

Lokanir á vegum á Vestfjörðum verða endurskoðaðar um hádegi þegar hvassviðrinu hefur slotað. Sama á við um Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð, leiðina milli Súðavíkur og Ísafjarðar, en hún verður ekki skoðuð m.t.t. opnunar fyrr en birtir og hægt verður að sjá upp í híðar.

Nánari upplýsingar um þetta er að finna á vef Vegagerðarinnar, vegagerdin.is og eins í upplýsingasíma þeirra 1777.

Greiðfært er víða suðvestanlands, þó eru hálkublettir og þoka á Sandskeiði og Hellisheiði. Hálkublettir eru víða á Vesturlandi og óveður. Lokað um Bröttubrekku.

Á Austurlandi er flughálka á þeim leiðum sem eru opnar nema á Fagradal og Oddskarði en þar er hálka. Unnið er að opnun á Fjarðarheiði.

Áfram verður víða stormur eða rok framan af degi. Lægir svo um munar síðdegis þegar óveðurslægðin fjarlægist landið,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×