Fótbolti

Zlatan fær meiri vernd í París

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic er kominn aftur til Parísar eftir landsleikjafrí, líkt og flestir aðrir leikmenn liðsins. Í dag er vika liðin frá hryðjuverkaárásunum í borginni.

L'Equipe greinir frá því í dag að PSG hafi brugðist við árásunum meðal annars með því að auka vernd fyrir leikmenn liðsins á heimilum þeirra. Þeirra á meðal eru Zlatan, David Luiz og Thiago Silva.

Sjá einnig: PSG heiðrar fórnarlömb hryðjuverkanna

Fréttavefurinn Fotbollskanalen í Svíþjóð fullyrðir að Zlatan hafi sjálfur farið fram á að fá meiri vernd heima hjá sér. „Ef leikmaður óskar eftir vernd eða áfallahjálp þá er sjálfsagt að félagið bjóði upp á slík úrræði,“ sagði talsmaður PSG í samtali við L'Equipe.

Enn fremur er greint frá því að tíu vopnaðir verðir standa nú vörð um æfingasvæði félagsins. PSG mætir Lorient á útivelli um helgina en búast má við að þar eins og víðar verði stórhertar öryggisaðgerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×