Fótbolti

Sama uppskriftin að árangri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir fagna gegn Hollandi.
Strákarnir fagna gegn Hollandi. vísir/vilhelm
Miðað við gengi íslenska landsliðsins síðan Lars Lagerbäck tók við stjórninni með Heimi Hallgrímssyni, fyrst sem aðstoðarmanni og síðar samþjálfara, er óþarfi að óttast árangurinn í síðustu leikjum. Strákarnir okkar eru án sigurs í síðustu fimm leikjum og þar af hafa þeir tapað síðustu þremur.

Það er gömul saga og ný að íslenska liðið undir áhrifum Lars Lagerbäcks vinnur leikina sem skipta máli en nær ekki úrslitum í vináttu- og æfingaleikjum. Í fyrstu 40 leikjum Svíans hefur Ísland unnið aðeins rétt ríflega þriðjung æfingaleikjanna en er með ríflega 57 prósent sigurhlutfall í mótsleikjum. Það er á endanum auðvitað það sem skiptir máli.

Strákarnir eru í svipaðri hringrás og í lok árs 2013 og byrjun árs 2014. Þá náðu þeir ekki að vinna Króatíu í tveimur frægum umspilsleikjum í lok árs 2013 en þar er auðvitað um að ræða mótsleiki. Árið 2014 byrjaði svo ekki vel. Skelfileg frammistaða B-liðsins í Dubai gegn Svíþjóð skilaði tapi og svo fíflaði Gareth Bale okkar menn upp úr skónum í tapleik gegn Wales.

Betri hlutir fóru þó að sjást í vináttuleik gegn Austurríki en eftir jafntefli gegn því firnasterka liði – sem sló í gegn í undankeppni EM líkt og Ísland – duttu strákarnir í gang og unnu Eista í æfingaleik áður en Tyrkir, Lettar og Hollendingar voru lagðir að velli án þess að liðið fengi á sig mark í byrjun undankeppni EM.

Lars og Heimir eru að reyna að stækka hópinn með því að gefa öðrum mönnum tækifæri en hafa spilað flesta leikina í undankeppninni. Liðið er fastmótað sem er einn helsti styrkleiki þess en jafnframt mikill veikleiki þegar kemur að leikjum sem skipta minna máli.

„Við vitum það allir að ef við hefðum spilað okkar sterkasta lið hefðum við jarðað báðar þessar þjóðir,“ sagði Kári Árnason í viðtali við fótbolti.net eftir tapið fyrir Slóvakíu. Það er erfitt að mótmæla miðverðinum þar. Úrslitin tala einfaldlega sínu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×