Enski boltinn

Liðsfélagi Gylfa leikmaður mánaðarins | Pellegrini stjóri mánaðarins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ayew fagnar hér jöfnunarmarki sínu gegn Manchester United með Gylfa og Williams.
Ayew fagnar hér jöfnunarmarki sínu gegn Manchester United með Gylfa og Williams. Vísir/Getty
Nýliðinn Andre Ayew var í gær valinn leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni en Ayew skoraði þrjú mörk í fjórum leikjum með Swansea.

Þá var Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, valinn stjóri mánaðarins eftir að hafa stýrt liði sínu til sigurs í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins.

Ayew sem gekk til liðs við Swansea frá Marseille í sumar hefur slegið í gegn hjá liðinu en hann hefur skorað þrjú mörk og lagt upp eitt í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins.

Hefur hann náð vel saman við liðsfélaga sinn hjá Swansea, Bafetimbi Gomis, en hann var einnig tilnefndur sem leikmaður mánaðarins. Hafa þeir félagarnir skorað öll mörk Swansea í ensku úrvalsdeildinni það sem af er.

Þá var Pellegrini útnefndur knattspyrnustjóri mánaðarins en Manchester City situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir fjóra leiki með fullt hús stiga og þriggja stiga forskot á Crystal Palace.

Lærisveinar Pellegrini hafa litið afskaplega sannfærandi út en í þessum fjórum leikjum hefur liðið skorað 10 mörk og ekki fengið á sig mark. Voru David Silva og Aleksandr Kolorov, leikmenn liðsins, tilnefndir sem leikmenn mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×