Enski boltinn

Gerrard: Rodgers ætti að taka við landsliðinu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Næsti þjálfari enska landsliðsins?
Næsti þjálfari enska landsliðsins? Vísir/Getty
Steven Gerrard, leikmaður LA Galaxy, segir að fyrrum knattspyrnustjóri sinn hjá Liverpool, Brendan Rodgers, ætti að taka við starfi þjálfara enska landsliðsins þegar Roy Hodgson, núverandi þjálfari, hættir.

Gerrard sem lék undir stjórn Hodgson hjá bæði Liverpool og enska landsliðinu sagðist þó ekki vera óánægður með störf hans.

„Ég get ekki sett út á Roy, hann hefur verið mér mikilvægur og hefur gert vel með enska landsliðið. Hann veit samt að ef hann nær ekki árangri á EM verður hann gagnrýndur og ég er viss um að þá verða gerðar breytingar á þjálfarateyminu.“

Óvissa er um framtíð hins 68 árs gamla Hodgson en hann er með samning við enska knattspyrnusambandið út lokakeppni EM í Frakklandi 2016.

„Ég held að leikstíllinn sem hann lætur lið sín spila muni henta Englandi vel, hann vill halda bolta sem er nauðsynlegt í landsleikjum þar sem hitinn getur verið óbærilegur. Þá þarf að halda bolta betur og liðin hans halda bolta vel. Ef þú vilt einhvern sem mun láta liðið spila vel og leikmenn ánægða þá hlýtur nafn Brendans að koma upp í umræðunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×