Enski boltinn

Ivanovic pirraður: Þurfum að vakna til lífsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ivanovic hefur eytt miklum tíma á rassinum fyrstu umferðirnar.
Ivanovic hefur eytt miklum tíma á rassinum fyrstu umferðirnar. Vísir/Getty
Branislav Ivanovic var pirraður eftir 1-3 tap Chelsea gegn Everton í gær en eftir tapið eru ensku meistararnir aðeins með 4 stig eftir 5 leiki í ensku úrvalsdeildinni. Sagði hann að leikmenn liðsins þyrftu að fara að vakna til lífsins.

Ivanovic og félagar í Chelsea urðu enskir meistarar á síðasta tímabili með miklum yfirburðum en ekkert lið komst nálægt Chelsea eftir áramót. Var Chelsea talið líklegt til þess að verja titilinn í ár en félagið bætti m.a. við sig spænska landsliðsmanninum Pedro í sumar.

Það hefur hinsvegar verið ótrúlegt að fylgjast með varnarleik Chelsea á tímabilinu en varnarleikur liðsins hefur verið aðalsmerki þess undanfarin ár. Hefur félagið fengið á sig 12 mörk í fyrstu fimm leikjum tímabilsins eða 2,4 mark í leik.

„Við þurfum að vinna leik til þess að koma okkur aftur af stað, úrslitin hingað til gefa að mínu mati ekki rétta mynd á spilamennskunni hjá okkur en við verðum að vakna til lífsins. Það er verið að refsa okkur fyrir öll okkar mistök. Við verðum að hugsa um hvern einasta leik héðan frá sem úrslitaleik.“

Chelsea hefur tapað þremur af fyrstu fimm leikjum tímabilsins en félagið tapaði aðeins þremur leikjum allt síðasta tímabil. Er þetta versta byrjun Chelsea á tímabili í 27 ár eða allt frá árinu 1988.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×