Enski boltinn

Tottenham gerir annað tilboð í Berahino

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Berahino skoraði 14 mörk í ensku úrvalsdeildinni í fyrra.
Berahino skoraði 14 mörk í ensku úrvalsdeildinni í fyrra. vísir/getty
Samkvæmt frétt Telegraph mun Tottenham Hotspur gera West Brom 20 milljóna punda tilboð í framherjann Saido Berahino á næstu dögum.

West Brom hefur þegar hafnað einu tilboði Spurs í leikmanninn en það hljóðaði upp á 15 milljónir punda. Lundúnaliðið mun hækka tilboð sitt í þessari viku ef marka má heimildir Telegraph.

Tottenham-liðið er mjög þunnskipað fram á við en Harry Kane vantar sárlega meiri stuðning í framlínunni. Kane sló í gegn á síðasta tímabili, þar sem hann gerði 31 mark, en hann á enn eftir að skora í ár.

Berahino, sem er 22 ára, var ekki í leikmannahópi West Brom þegar liðið tapaði 2-3 fyrir Chelsea í gær. Að sögn Tony Pulis, knattspyrnustjóra West Brom, var það of erfitt að velja Berahino í hópinn vegna umræðu síðustu daga og óvissunar um framtíð framherjans.

West Brom er með ágætis breidd fram á við, sérstaklega eftir kaupin á Salomón Rondón frá Zenit, og því er spurning hvort liðið sjái sér leik á borði og reyni að fá sem hæsta upphæð fyrir Berahino, sérstaklega þar sem Pulis hefur sagt að það þurfi að styrkja liðið í öðrum stöðum.

Tottenham er aðeins með tvö stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni en West Brom er með stigi minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×