Enski boltinn

Messan: Umræða um varnarlínu Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir í Messunni voru ekki hrifnir af varnarlínu Arsenal í 0-0 jafnteflinu við Liverpool í gær.

Vegna veikinda Per Mertesacker og meiðsla Laurent Koscielny þurfti Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, nota þá Gabriel Paulista og Calum Chambers í miðri vörn Skyttanna í gær. Spánverjarnir Hector Bellerín og Nacho Monreal voru svo bakverðir.

„Ef þeir þurfa að nota þessa leikmenn í allan vetur vinna þeir ekki deildina eða verða ofarlega,“ sagði Þorvaldur Örlygsson sem var gestur Hjörvars Hafliðasonar ásamt Arnari Gunnlaugssyni.

„Eins og við sáum á Chambers í vandræðum í miðvarðastöðunni. Hann réði engan veginn við sterkan leikmann eins og (Christian) Benteke og var í raun stálheppinn að Liverpool komst ekki yfir í fyrri hálfleik.“

Arnar var þó nokkuð hrifinn af Brasilíumanninum Gabriel sem var aðeins að byrja sinn fimmta deildarleik fyrir Arsenal.

„Gabriel stóð sig vel. Hann er fljótur og sterkur í loftinu,“ sagði Arnar sem var, líkt og Þorvaldur, á því að markið sem Aaron Ramsey skoraði í fyrri hálfleik hefði átt að standa en Walesverjinn var dæmdur rangstæður.

„Þetta var klárlega mark og þetta var bara röng ákvörðun hjá línuverðinum,“ sagði Arnar og Þorvaldur tók í sama streng.

„Línuverðirnir eru náttúrulega í mjög erfiðu starfi þarna í Englandi og þetta er þröngt og erfitt. En þetta var aldrei rangstaða.“

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×