Enski boltinn

Sherwood hlustaði á ráð Bellamy

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rudy Gestede og Craig Bellamy.
Rudy Gestede og Craig Bellamy. Vísir/Getty
Tim Sherwood, knattspyrnustjóri Aston Villa, þakkar meðal annars fyrir góðum meðmælum frá Craig Bellamy fyrir að hann lét verða af því að kaupa framherjann Rudy Gestede.

Rudy Gestede skoraði sigurmark Aston Villa á móti nýliðum Bournemouth í 1-0 sigri Villa á heimavelli Bournemouth í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um helgina.

Rudy Gestede er 26 ára Beinínmaður sem Aston Villa keypti á sex milljónir punda frá Blackburn Rovers í sumar. Sherwood vantaði framherja eftir að Aston Villa seldi Christian Benteke til Liverpool.

Rudy Gestede kom inná sem varamaður á móti Bournemouth og skoraði sigurmarkið aðeins þrettán mínútum síðar þegar hann skallaði inn hornspyrnu.

Craig Bellamy er góður vinur Tim Sherwood og hann fullvissaði knattspyrnustjórann að Rudy Gestede væri tilbúinn fyrir ensku úrvalsdeildina og Bellamy hrósaði Gestede líka fyrir vinnusemi.

„Craig var með honum hjá Cardiff og fór lofsamlegum orðum um hann. Ég hef verið lengi að fylgjast með Rudy Gestede," sagði Tim Sherwood við Birmingham Mail.

Craig Bellamy er nú hættur að spila og ætlar sér að verða knattspyrnustjóri í framtíðinni. Hann starfar nú sem unglingaþjálfari hjá Cardiff. Bellamy vonast eftir því að fá tækifærið til að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni alveg eins og Tim Sherwood.

Tim Sherwood hefur verið duglegur að leita ráða hjá leikmönnum sem hann spilaði með á löngum ferli sínum enda gæti slík ráð komið sér afar vel þegar hann þarf að fá rétta menn sem mega ekki kosta of mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×