Enski boltinn

Schweinsteiger: Vil vinna alla titla sem eru í boði

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Schweinsteiger í fyrsta leik sínum í treyju Manchester United.
Schweinsteiger í fyrsta leik sínum í treyju Manchester United. Vísri/getty
Þýski miðjumaðurinn Bastian Schweinsteiger segir að ástæða þess að hann hafi gengið til liðs við Manchester United frá Bayern Munchen í sumar hafi verið sú að hann sé kominn til þess að vinna titla.

Töldu margir að sú staðreynd að knattspyrnustjóri liðsins, Louis Van Gaal, hefði áður verið þjálfari Schweinsteiger hjá Bayern Munchen, hefði haft áhrif en þýski miðjumaðurinn segist aðeins vera kominn til þess að berjast um titla.

 

„Það hjálpaði til að ég þekkti þjálfarann en ég kom hingað til þess að leika fyrir þetta sögufræga félag. Að ég sé fyrsti þýski leikmaðurinn sem leikur fyrir aðallið félagsins er eiginlega magnað, ég hafði ekki hugmynd um það þegar ég skrifaði undir.“

Schweinsteiger á von á harðri baráttu um enska meistaratitilinn en hann vonast til þess að eigin reynsla geti aðstoðað.

„Ég get ekki sagt að við munum vinna titilinn næstu þrjú ár en þeir sem þekkja mig vita að ég vill vinna alla titla sem í boði eru og ég kom til að berjast um titla. Félagið deilir þeim skoðunum mínum og vonandi getum við komið félaginu á sama stall og Barcelona, Bayern og Real Madrid á ný.“

Þýski miðjumaðurinn verður í leikmannahóp Manchester United í kvöld sem snýr aftur í Meistaradeildina eftir eins árs fjarveru í kvöld. Tekur Manchester United á móti Club Brugge á Old Trafford en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×