Innlent

Meiri líkur en minni á innflutningsbanni til Rússland

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Einhugur er um það í utanríkismálanefnd Alþingis að Ísland haldi áfram stuðningi við viðskiptaþvinganir ESB gegn Rússum þrátt fyrir að gríðarlegir hagsmunir séu undir í sjávarútvegi. Utanríkisráðherra telur meiri líkur en minni á því að Rússnesk stjórnvöld banni innflutning á íslenskum sjávarafurðum eftir tíðindi síðustu daga.

Gunnar Bragi Sveinsson segist vera ósáttur við gagnrýni talsmanna sjávarútvegsfyrirtækja á viðbrögð stjórnvalda og skort á samráði við þá sem eiga hagsmuni undir í greininni. Hann ætli þó ekki að munnhöggvast við þá í fjölmiðlum.

Hann segir engan vafa leika á því að innflutningsbannið verði mikið áfall fyrir útflytjendur og sem og þjóðina alla, ef því verði. Hann segist þó boðinn og búinn til að aðstoða við að finna nýja markaði.

Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur

„Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að ræða eða koma skilaboðum á framfæri til rússneskra stjórnvalda,“ segir hann. „Við höfum beitt öllum þeim brögðum sem við höfum yfir að ráða en endanleg ákvörðun er að sjálfsögðu þeirra.“

Hann segir að ef allt fari á versta veg muni stjórnvöld gera allt sem þau geta til að aðstoða útflytjendur, persónulega telji hann koma til greina að fara sömu leið og Norðmenn, og styðja útflytjendur með tryggingum og fjárhagslegum stuðningi. Það þurfi þó að ræða á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Spurður að því hvort menn hafi farið of geyst í stuðningi við viðskiptaþvinganir ESB, segir hann að auðvitað komi upp efasemdir þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Þetta snúist þó um það prinssip að alþjóðalög og alþjóðasamningar séu virtir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×